Ekki nota allir ofurkrafta sína til góðs: Japanskur afgreiðslumaður í búð notaði einstakt ljósmyndaminni sitt til að muna kreditkortaupplýsingar meira en þúsund viðskiptavina og pantaði hann sér svo hluti af netinu.
Yusuke Taniguchi (34) var nýlega handtekinn fyrir að hafa stolið kreditkortaupplýsingum viðskiptavina og notað þær til að versla á netinu. Vann Yusuke í hlutastarfi í búð í verslunarmiðstöð í borginni Koto í Tókíó, þar sem hann mundi númer kortsins, nafn viðskiptavinarins, daginn sem kortið rann út og leyninúmerið aftan á kortinu. Það tekur nokkrar sekúndur að borga, og mundi hann þetta allt.
Hefur maðurinn ótrúlega nákvæmt sjónminni og gat Yusuke Taniguchi munað alla rununa ásamt hinum upplýsingunum einnig. Skrifaði hann niður númerin og þegar lögreglan braust inn í íbúð hans og handtók, fundu þeir óteljandi glósubækur, fullar af nöfnum og númerum sem hann hafði komist yfir.
Taniguchi sagði við yfirheyrslur að hann hefði notað númerin til að panta alls kyns varning sem hann seldi svo í veðlánabúðum og nýtti hann peninginn til að borga leigu og kaupa mat. Það var reyndar þannig sem hann náðist. Í marsmánuði þessa árs hafði hann keypt tvær dýrar töskur með stolnu númerunum og þær voru sendar á heimilisfangið hans. Þannig náði lögreglan í skottið á honum.
Lögreglan gerir ráð fyrir að maðurinn hafi komist yfir meira en 1300 númer.