Sex ára stúlka var hrifsuð úr örmum móður sinnar í dag, mánudaginn 2. september af fjórum þorpurum, en móðirin var að skutla henni í skólann. Gerðist þetta í Vanderbijlpark sem er nálægt Jóhannesarborg í Suður-Afríku. Angeline de Jager hafði lagt VW Polo bílnum sínum fyrir utan hlið skólans til að ganga með Amy-Lee, sex ára, og fimm ára syni í skólann. Mannræningjarnir birtust „upp úr þurru“ og hrifsuðu stúlkuna úr höndum móður hennar sem öskraði.
Faðir Amy-Lee er Wynand, sem keppir í alþjóðlegum F1 mótorbátakeppnum. Fékk hann símtal í símann sinn síðar um daginn, þar sem tveggja milljóna randa lausnargjalds var krafist fyrir dóttur hans (um 17 milljónir ISK).
Nú er mannræningjanna leitað um alla Suður-Afríku. Mennirnir voru á bíl af Toyota Fortuner fjórhjóladrifnum jeppa.
Fjölskyldan hefur ekki tjáð sig en vinur hennar tjáði sig nafnlaust: „Þið getið bara ímyndað ykkur hvað er að fara í gegnum huga móðurinnar og föðurins. Þetta var ekki tilviljunarkennt rán heldur skipulagt. Lögreglan hefur staðið sig mjög vel og gera allt sem þeir geta til að koma henni heim en þetta er gersamlega skelfilegt. Amy-Lee er bara sex ára og varnarlaus.“
Wendy Pascoe, sem sérhæfir sig í að finna týnd börn, hefur verið fengin til að semja við mannræningjana og vera í samstarfi við lögreglu. Segir hún: „Þetta er mjög sérstakt mál þar sem mannræningjarnir hafa sérstaklega viljað Amy-Lee, ekki bróður hennar. Stundum er bílum rænt og börnin eru óvart með en þeir voru sérstaklega að leita að henni.“
Móðir Amyar fékk áverka á öxl eftir átökin en hefur ekki þurft að leita á sjúkrahús. Skólinn hefur fengið sérfræðinga til að tala við börn og foreldra sem eru í áfalli eftir þennan skelfilega atburð.
Amy-Lee var í bleikum kjól, hvítri blússu, svörtum leggings og skóm þegar hún var tekin.
Litli bróðir Amyar er hjá frænku hans, Louise Horn, á meðan foreldrarnir vinna með lögreglunni: „Jayden er hjá mér, hann er í áfalli, en samt í góðu lagi. Þau eru að vinna með lögreglunni og eru að bíða eftir næsta símtali frá mannræningjunum. Þau eru ekki í góðu ástandi eins og gefur að skilja.“