Eftir áskorun í samkvæmi ákvað hinn 34 ára, þriggja barna faðir, David Dowell að borða gekkó eðlu, en hann lést af völdum salmonellu tíu dögum seinna. Gerðist atvikið í Brisbane í Ástralíu.
Veðmál var í gangi í samkvæminu og „vann“ David veðmálið með því að innbyrða eðluna. Fjölskylda hans lýsir honum sem ástríkum föður og miklum gleðigjafa: „Ég held það sé ekki neinn sem hitti hann sem elskaði hann ekki fyrir manneskjuna sem hann var,“ sagði Allira Bricknell kona hans. Kallaði hún David „besta pabbann.“
„Ég vil muna eftir góðu stundunum. Ég er mjög áhyggjufull vegna barnanna okkar, ég vil verja þau. Þetta var mikið áfall og er enn mikið áfall.“
Samkvæmið var um jólin.
Allira, sem hitti David fyrst þegar hún var 18 ára, sagði: „Við vitum ekki 100 prósent hvernig hann lést en á dánarvottorðinu segir að hann hafi innbyrt eðlu þannig ég trúi því. Hann var listrænn, mjög listrænn. Hann var frábær manneskja, ein sú besta sem ég hef hitt og hann var besti faðir sem börnin okkar gætu óskað sér.“
Varar hún fólk við slíkum áskorunum: „Ég vil ekki að fólk áreiti okkur vegna þessa.“
Hannah Dowell, systir Davids, segir að bróðir hennar hafi verið ákaflega veikur eftir áskorunina. Hann var greindur með salmonellu, sem er baktería sem smitast í matvælum. Þeir sem fá slíka bakteríu þjást yfirleitt í marga daga með niðurgang, magakrampa og hita.
Lungu Davids fylltust af vökva og lak úr maga hans einnig: „Allira spurði lækninn og hann sagði að gekkóinn hefði valdið þessu,“ sagði Hannah í viðtali við Brisbane Times.