Er Ísland paradís mannréttinda? Þriðjudaginn 21. maí mun verða staðið fyrir Living Library eða lifandi bókasafni á Laugavegi 170 milli klukkan 20 og 22.
Í nóvember 2018 fóru Árný Stella Sveinbjörnsdóttir, Eyrún Inga Þorbjörnsdóttir og Erla Guðrún Þórðardóttir á vegum Mannréttindaskrifstofu Íslands til Tenerife á námskeið um mannréttindi. Námskeiðið var um hvernig hægt væri að vekja athygli á mannréttindum og hvetja fólk til að taka afstöðu gegn mannréttindabrotum. Út frá því námskeiði huguðu þátttakendur að stöðu mannréttinda á Íslandi.
Þátttakendur á námskeiðinu voru frá Ítalíu, Spáni, Rúmeníu, Króatíu og Tékklandi og litu þeir á Ísland sem paradís mannréttinda. Er það rétt? Eiga sér ekki stað mannréttindabrot á Íslandi? Hvernig er brugðist við mannréttindabrotum á Íslandi? Við erum vissulega á góðum stað miðað við önnur lönd en staðan á Íslandi er ekki fullkomin.
Þær stöllur segja:
Okkur langar að nýta það sem við lærðum á námskeiðinu til að bæta stöðu mannréttinda á Íslandi og vekja athygli á kynferðisofbeldi á Íslandi. Í samstarfi við Stígamót ætlum við því að halda viðburð þriðjudaginn 21. maí kl. 20:00 í húsnæði Stígamóta.
Á viðburðinum munum við nýta hugmyndafræðina Living library eða lifandi bókasafn. Hún er framkvæmd þannig að fengnir eru einstaklingar til að segja sögu, Í okkar tilfelli sögu af kynferðisofbeldi sem þau gengu í gegnum. Einstaklingarnir gegna svo hlutverki bóka á viðburðinum og fá sitt eigið rými þar sem þeir geta sagt sína sögu. Gestunum sem koma á viðburðinn er úthlutað bók, ein bók á gest í einu. Gesturinn fer og hittir sína bók og bókin segir honum söguna sína. Gesturinn hlustar á bókina en engin önnur samskipti eiga sér stað á milli bókar og gests. Gesturinn aðeins hlustar og þegar sögunni er lokið getur hann farið og fengið úthlutað annarri bók og hlustað á aðra sögu.
Einnig verður í boði kaffi og smá snarl og hægt verður að horfa á myndbönd úr safni Stígamóta.
Við hlökkum til að sjá þig!