Margrét Nilsdóttir, listmálari og varaformaður BDSM á Íslandi, skrifar: Nú er ljóst að gjörningahópurinn Hatari muni fara til Ísraels með atriðið sitt „Hatrið mun sigra“ núna í maí. Sitt sýnist hverjum um það, sum hneykslast bara strax svo mikið að ádeilan fer framhjá þeim og þau súpa hveljur og tauta eitthvað um hvað það sé nú sorglegt að allt eigi að snúast um hatur og klikkja svo út með einhverju sem oftast má snúa upp í „Hvað með börnin?!?!“. Við það fólk vil ég segja: „Jú, börnin hafa það bara fínt og það skaðar þau ekkert að sjá eitthvað annað en glimmerkjóla og jakkaföt. Þetta er ekkert kynferðislegra fyrir þeim en Leðurblökumaðurinn, svo hættið að gera þeim upp hvatir sem þau hafa ekki.“
Önnur þykjast fatta ádeiluna en þykir hún tilgangslaus og finnst sem Hatari sé að notfæra sér eymdina til að vekja athygli á sér, sem er auðvitað rétt og passar vel við Hatara, sem gengur út á hræsni og er þar komið hringinn og orðið partur af ádeilunni (…nú eða ekki, dæmi hver fyrir sig).
Nína Hjálmarsdóttir skrifaði grein í Stundina um þetta undir yfirskriftinni „Að eigna sér baráttu annarra“ þar sem hún gagnrýnir Hatara fyrir að taka þátt í ár og hefur þar ýmislegt til síns máls. Nína kemur víða við í gagnrýni sinni og talar m.a. um hlutgervingu kvenna og eignun Hatara á menningu BDSM-fólks. Ég er þakklát fyrir umhyggjuna, því það er vissulega sárt þegar tákn jaðarmenningar eru notuð til að bæta smá „jaðarkryddi“ í meginstraumssúpuna og það er gott að fólk er byrjað að tala um það opinberlega.
Ég held samt að ég tali fyrir munn flestra BDSM-hneigðra á landinu þegar ég segi að við elskum Hatara. Þeir fara vel með táknin okkar, fara alla leið með þetta (nota flottan, vandaðan, vel hannaðan búnað), eru ekki að skrumskæla eða hæðast að okkur, heldur vanda sig og sýna þessu ákveðna fagmannlega virðingu, sem er eitthvað sem maður sér sjaldan þegar verið er að „fá lánað“ eitt og annað úr menningu okkar. Eins hafa þeir talað við okkur og hlustað á okkur enda eiga þeir stóran aðdáendahóp innan okkar raða.
Industrial/Gothmenningin og BDSM/blætimenningin skarast mikið og táknheimur okkar á því vel heima í þessu samhengi. Þarna er verið að gæla við myrkrið, við hið forboðna, við ögrun og drottnun, allt passar þetta því saman og verður fallegt (allavega fyrir okkur) en ekki afbakað.
Ég vil því beina því til allra vel meinandi samherja að detta ekki í þá gryfju að „eigna sér baráttu annarra“ með þvi að móðgast skelfilega fyrir okkar hönd.
Áfram allskonar – Áfram Hatari!