Í hinum hraða heimi sem við lifum í er ánægjulegt að fá innsýn inn í líf bændanna Jeanie og Steve Green sem búa í Yorkshire í Bretlandi. Þau eru sjaldgæf sjón og ein hamingjusömustu hjón sem þú hittir.
Steve (90) og Jeanie (67) búa án nokkurra nútímaþæginda á sveitabæ sem Steve hefur kallað heimili sitt í 75 ár.
Á hverjum morgni fer Steve á fætur klukkan sex til að huga að dýrunum og hann á ekki eftir að stoppa næstu 18 tímana. Giskað er á að hann sé einn elsti bóndi Bretlands.
Þessi nægjusömu hjón höggva eigin eldivið og rækta og elda hverja einustu máltíð frá grunni. Þau rækta svo ber og ávexti á sumrin og sulta fyrir veturinn.
Þau hafa aldrei notað internetið.
Eini lúxusinn sem þau leyfa sér er að kaupa fisk og franskar á föstudagskvöldum! Þau fara líka í bæinn daglega til að kaupa dagblöðin.
Þau hafa aldrei heimsótt London, aldrei farið í flugvél og eina lestarferðin sem þau fóru í var með gufulest fyrir einhverjum áratugum.
Það lengsta sem þau hafa ferðast að heiman er um 80 kílómetra leið til strandarinnar í Whitby en það var brúðkaupsferðin þeirra fyrir 40 árums íðan.
Þau eru orðin fræg í Bretlandi, svo mjög að þau eru komin með eigin þátt! Green hjónin voru alveg agndofa yfir þeim fréttum, en í þáttunum er fylgst með þeim endurnýja brúðkaupsheitin og segja lífssögu sína.
Jeanie segir: „Við höfum unnið saman í 40 ár á hverjum degi og við höfum eiginlega aldrei rifist. Þetta bara virkar. Við elskum landið okkar og við elskum hvort annað.”
Rómantíkin var í loftinu á sveitabænum sem varð svo miðpunktur lífs þeirra. Jeanie segir: „Ég bjó í næsta húsi og Steve hafði séð mig og langaði að bjóða mér út, svo hann sendi bróður sinn til að spyrja mig!”
„Þetta var ást við fyrstu sýn hjá okkur báðum og þremur mánuðum og tíu dögum seinna vorum við gift. Ég giftist bónda, sem var æðislegt, og við höfum aldrei litið til baka.”
Steve hafði búið ásamt fjölskyldu sinni frá 15 ára aldri, en þau fluttu inn á fimmta áratug síðustu aldar. Hann vann alla daga ársins og var einhleypur að nálgast fimmtugt þegar hann fann loks ástina. Jeanie, sem er 26 árum yngri, fæddi svo dóttur þeirra Sarah sem nú er 35 ára.
Dýralæknirinn Peter Wright, sem hefur hugsað um dýr Green hjónanna síðan 1982 segir: „Sveitafólk eins og Jeanie og Steve eru að deyja út – það er fátt fólk eins og þau á sveitabæjunum núna. Þau eru ótrúleg og halda áfram 365 daga á ári. Þau eru mjög hamingjusöm. Ef allir gætu lifað eins fábrotnu lífi og þau væri heimurinn betri staður.
Nú, þökk sé sjónvarpsþættinum, hefur fólk frá Ástralíu og Bandaríkjunum ferðast til Yorkshire til að sjá þau.
Þau hafa nú endurnýjað heitin og sögðu við hvort annað í athöfninni, en viðstaddir sátu á heyböggum í kringum þau: „Síðan við hittumst fyrir 40 árum gerðirðu mig að hamingjusamasta manni í heimi. Þú ert mér allt,” sagði Steve.
„Þegar ég sá þig fyrst var það töfrandi augnablik. Ég mun elska þig að eilífu,” svaraði Jeanie.
Fátt hefur raskað ró þeirra, en Steve varð veikur og kviðslitnaði árið 2015 og þurfti að fara í aðgerð. Þá seldu þau kýrnar: „Það var sláandi að selja þær. Við höfum haft kýr á þessu landi í 200 ár.”
Nú halda þau kálfa – enn krefjandi verk- og eiga tvo asna, hund og 18 ketti. Eitt sinn var þeim boðin fúlgur fjár fyrir að selja landið en þau vildi það ekki.
„Peningar hafa enga þýðingu fyrir okkur. Það er allt bara loft. Fólk spyr okkur af hverju við förum ekki á eftirlaun en við munum aldrei gera það. Við erum hamingjusöm því við erum saman og eigum þennan bæ. Við munum aldrei selja hann. Steve kann að vera níræður en hann fer ekki á eftirlaun. Vinnan heldur honum ungum,” segir Janine.
Steve bætir við: „Ég bara elska að fara út á traktornum mínum. Það gefur mér tíma til að hugsa.”
Heimild: The MIrror