Svavar Knútur, söngvaskáld, er ekki aðdáandi almennu bankanna og hefur mikilvæg skilaboð að færa ykkur ef þið eruð ósátt við bankana og viðskipti ykkar við þá.
Hann skrifar á Facebook:
Ef þú ert hneykslaður/hneyksluð á bönkunum og ofurlaunum bankastjóranna, nöldrar á netinu og á kaffistofunni og hnussar í átt að sjónvarpinu og gerir svo ekkert í því, þá ertu bara með innistæðulaust tuð.
Skiptu yfir í Sparisjóð. Sparisjóðsstjórar eru með rétt um milljón í laun á mánuði og það eru engar „spaðadeildir“ í sparisjóðunum. Málið dautt.
Ég er búinn að vera hjá Sparisjóði Strandamanna á Hólmavík í áratug. Ég er mjög ánægður. Og það er nóg pláss fyrir nýja viðskiptavini hjá þeim. Heimabankinn er pínu forn, en hann dugar. Ég byrjaði á að færa launareikninginn þangað. (Alla banka svíður undan þeirri aðgerð.) Síðan samdi ég við Strandamenn um að fá hjá þeim lán til að borga upp lánin í gamla viðskiptabankanum. (Banka svíður ekki síður undan þeirri aðgerð). Málið dautt.
Taktu peninginn þinn út úr fyrirtækjum sem þú ert ekki sáttur við. Beindu viðskiptum þínum að fyrirtækjum sem eru með góða og uppbyggilega stefnu og sýna ábyrgð.
Verði ykkur að góðu.
Færslan er birt með leyfi Svavars Knúts