Geta hundar orðið þunglyndir? Hefur þú greint breytingu á besta vininum? Eins og manneskjur geta hundar gengið í gegnum þunglyndisskeið. Þrátt fyrir að þunglyndið lýsi sér öðruvísi en hjá manneskjum þýðir það ekki að þeir geti ekki orðið þunglyndir. Klínísk útskýring er önnur, en vissulega – þeir geta upplifað þunglyndi.
Þegar hundar upplifa þunglyndi skynjum við að þeir séu leiðir, óframfærnir og daufir eða sinnulausir. Sumir hætta að borða (minnkuð matarlyst) eða drekka bara lítið vatn á hverjum degi. Þeir hætta að vilja leika sér. Svo geta þeir grennst vegna þessa og þróað með sér líkamleg einkenni.
Þú, sem elskandi hundeigandi, verður ábyggilega glaður þegar sagt er að þú getur hjálpað hundinum þínum!
Í fyrsta lagi þarftu að bera kennsl á vandann. Það eru margir þættir sem geta orsakað þunglyndinu. Til dæmis:
Líkamleg veikindi: Mörg heilsufarsvandamál geta látið hundinn virðast þunglyndan. Hafðu strax samband við dýralækni ef þú tekur eftir þunglyndiseinkennum hjá hundinum. Það er mikilvægt að útiloka strax líkamlega ástæðu fyrir hegðunarbreytingunni. Ef dýralæknirinn finnur vandamálið skaltu fylgja fyrirmælunum. Vonandi mun það laga þessi einkenni. Ef ekki, eða ef læknirinn hefur útilokað líkamleg vandkvæði skal horfa á andlega heilsu hundsins.
Sorg: Hundar syrgja eins og við. Ef einhver hefur fallið frá eða horfið úr lífi hundsins (farið í frí, flutt eða dáið). Eða, kannski var barn á heimilinu sem bast honum tilfinningaböndum og er annarsstaðar eða hefur hlutt út. Það er engin leið að útskýra þetta fyrir hundinum. Ef hundur glatar leikfélaga, sama hver ástæðan er, er erfitt fyrir hann að sætta sig við það. Við tökum kannski ekki eftir því en dýr syrgja líka.
Umhverfisbreytingar: Að flytja á nýjan stað, taka allt í gegn heima eða vetrarhörkur ríkja og þið farið ekki jafn oft út – þetta getur allt haft áhrif á annars glaðan hund. Þú getur ekki útskýrt fyrir honum ástæðuna. Það tekur oftast tíma fyrir hundinn að aðlagast breytingum.
Ótti: Hundurinn gæti haft ótta eða fælni gagnvart einhverju sem birtist þér sem þunglyndi. Stundum sýna hundar ótta á annan hátt en þú gætir ímyndað þér. Hann gæti reynt að þykjast ekki hræddur til að sýnast sterkur. Þess í stað bakkar hann frá athöfnum sem hann er vanur að taka þátt í.
ÞÚ: (eigandinn) – Hefur þú átt við veikindi eða þunglyndi að stríða? Hundurinn finnur allt slíkt, orkuna þína og mun jafnvel fá slík einkenni sjálfur. Eða – hann gæti verið leiður ef þú ert mikið í burtu. Þetta er eins og aðskilnaðarkvíði nema hvað hundurinn verður ekki „brjálaður” heldur heldur öllu inni og sýnir þunglyndiseinkenni.
Óþekkt: Stundum er engin ástæða. Þetta er væntanlega erfitt fyrir þig sem eiganda.
Hvað skal gera?
Mikill leiði og skortur á athöfnum geta verið mikilvægar vísbendingar að eitthvað er að angra hundinn þinn. Ef þetta gerist er mikilvægt að þú bregðist skjótt við og gera lífið skemmtilegt á ný. Ef þú hefur útilokað heilsufarsvanda þarftu að auka hreyfinguna og það sem þið gerið dags daglega. Farðu út að hlaupa, eða farðu í lengri göngutúr en vanalega.
Reyndu að finna upp á skemmtilegum hlutum, t.d. leikjum, trikkum eða þjálfun. Taktu tíma í að bindast honum tilfinningaböndum. Leyfðu honum að hitta aðra hunda ef það er jákvæð reynsla fyrir hann.
Það er eðlilegt að sýna hundinum meiri athygli en vanalega ef þú tekur eftir þessum einkennum. Þetta er ekki slæmt í sjálfu sér en reyndu að halda væntumþykjunni í lágmarki- ekki knúsa eða kremja hann meira en vanalega – það gæti snúist upp í andhverfu sína og valdið enn meiri sorg. Best er að halda sig við daglegar venjur, þannig finnst honum hann öruggur og eykur sjálfstraust hans.
Ef tíminn er réttur væri sniðugt að íhuga annan hund á heimilið (sérstaklega ef annar hundur hefur horfið af heimilinu af einhverjum ástæðum). Hinsvegar, ef hundurinn þinn samþykkir ekki hundinn gæti það gert illt verra. Farðu bara varlega.
Ef ekkert af þessu virkar gæti dýralæknirinn þinn hjálpað. Lyf eru síðasta úrræðið, en stundum er það hið eina rétt. Sumir dýralæknar geta ávísað fluoxetine (Prozac) þrátt fyrir að ekki geti allir hundar höndlað slíkla meðferð. Einnig gætir þú leitað hjálpar atferlisráðgjafa.
Þú gætir hugsað sem svo að þunglyndi sé ekki stórt mál. Þrátt fyrir að það sé rétt og lagast oft af sjálfu sér, eru tilfelli þar sem allt fer á verri veg. Ef þú bíður of lengi gæti það hreinlega verið banvænt. Leitaðu hjálpar fyrr en seinna. Rétti staðurinn til að byrja er dýralæknirinn.