Jordan, sambýliskona Alex, var fyrsta konan til að fara í breskt fangelsi fyrir ofbeldi og ógnandi/stjórnandi hegðun gagnvart maka. Í dag berst Alex gagnvart þeim stimpli sem karlmenn fá oft þegar þeir greina frá ofbeldi af hendi konu.
Varúð: Efnið gæti komið illa við suma
Alex Skeel (22) segir frá:
„Ég mun aldrei gleyma því augnabliki þegar Jordan, kærastan mín, hellti yfir mig sjóðandi vatni. Hún hafði króað mig af úti í horni í íbúðinni okkar í Bedfordshire, og hélt á katli með sjóðandi vatni.
Við höfðum þá verið saman í þrjú ár. Þetta hófst með litlum hlutum…hún sagði mér að hún vildi ekki að ég klæddist gráu, eða að hún fílaði ekki klippinguna mína. Svo – níu mánuðum inn í sambandið hafði líkamlega ofbeldið hafist. Ég var ofboðslega hræddur við hana.
Ég get enn séð þetta atvik fyrir mér – fyrsti pínulitli dropinn sem fór á húðina. Þetta gerðist allt í hægagangi. Eftir þetta þykknaði og bólgnaði húðin upp. Sársaukinn var meiri en ég hefði getað ímyndað mér. Ég grátbað hana um að leyfa mér að fara í kalt bað, það var það eina sem ég gat ímyndað mér að gæti linað þjáninguna. Hún leyfði mér það og ég fann fyrir létti. Þessi tilfinning var ólýsanlega góð eftir að hafa fengið sjóðandi vatn yfir sig. Eftir það sagði hún mér að drulla mér uppúr eða hún myndi gera þetta aftur.
Þetta snerist allt um stjórn – hún vildi stjórna öllum þáttum lífs míns. Ég man eftir að hafa legið nakinn í baðinu og það leit út eins og eins og ég væri í ofninum, að bakast. Húðin var að flagna af. Þetta var algerlega hryllilegt.”
Samkvæmt afbrotarannsóknum verða tvær milljónir manna og kvenna á aldursbilinu 16-59 ára fyrir ofbeldi á ári hverju. Meira en 1/3 eru karlmenn. Einn af hverjum fimm táningum hafa orðið þolendur líkamlegs ofbeldis af hendi kærasta eða kærustu. Fleiri karlmenn eru þolendur en fólk gerir sér grein fyrir. Einn af hverjum sex karlmönnum upplifir heimilisofbeldi af hendi maka einhverntíma á lífsleiðinni en aðeins einn af 20 mun leita sér hjálpar.
Alex og Jordan Worth voru 16 ára þegar þau hittust í menntaskóla árið 2012. Hún stóð sig vel í skóla og fékk pláss í háskólanum í Hertfordshire til að læra listir. Hún vildi verða kennari.
Alex segir: „Fyrstu mánuðina gekk allt vel. Við áttum góðar stundir og gerðum ofurvenjulega hluti – horfðum á myndir og fórum í göngutúra. Það var nýtt fyrir mér að kynna hana sem kærustuna mína. Vinir mínir sögðu: „Hvað gerðuð þið um helgina?” og ég sagði að ég hefði eytt henni með Jordan.
Svo eftir tvo mánuði fóru skrýtnir hlutir að gerast. Á þeim tíma gat ég ekki séð þá öðruvísi en að hún væri að sækjast eftir athygli. Mamma og pabbi höfðu keypt miða fyrir okkur á The Lion King í London og allt í einu hvarf Jordan. Við leituðum öll að henni í drjúga stund og svo, löngu seinna, fundum við hana í anddyrinu þar sem hún skellihló. Þetta var mjög skrýtið. Eftir á að hyggja held ég að hún hafi verið að láta mig fara í uppnám og hafa áhyggjur af sér, til að ná betri tökum á mér, svo að segja.
Áður en leið á löngu hafði Jordan náð að einangra mig frá fjölskyldu og vinum – hún kom í veg fyrir að ég hitti þau og hertók Facebooksíðuna mína – klassískt heimilisofbeldi. Ég gat ekki kvartað í neinum yfir þessu.
Hún fór að neita mér um mat, og ég grenntist mjög. Ég reyndi á taugar hennar en hún snerist gegn mér og kenndi mér alltaf um allt. Ég vissi að þetta var ekki mér að kenna en hún reyndi að heilaþvo mig. Þá ferðu að lokum að hugsa: „Hvað er ég eiginlega að gera rangt?” svo gerir þú eitthvað annað og þá færðu líka skammir fyrir það. Þegar hún sagði við mig: „Ég þoli ekki gráan,” eða „þessir skór eru ljótir” fór ég að hugsa: „Ok, ég klæðist þeim þá ekki” til að þóknast henni, láta það eftir henni. Í raun og veru var hún að móta mig, láta mig vera einhvern sem ég var ekki. Það grefur undan sjálfstraustinu. Þú ert í stríði sem þú munt aldrei vinna. Það er mjög svekkjandi.
Við eignuðumst tvö börn saman og ég hélt alltaf í þá von að eitthvað myndi breytast. Börnin voru lítil, auðvitað, en þau hljóta að hafa skynjað einhverja spennu, að eitthvað væri að. Hún meiddi þau aldrei beinlínis, en ég var alltaf óttasleginn um að ef ég myndi flytja út, færi hún bara að beita þau ofbeldi í staðinn. Þannig ég fór ekkert.
Auðvitað áttum við okkar góðu stundir, við Jordan. Augnablik þar sem ég var glaður, við hlógum og skemmtum okkur saman. Þetta var ekki ein samfelld martröð. Ég vildi ólmur að sambandið yrði betra. Ég taldi mig elska hana.
Það tók 18 mánuði frá því hún hóf andlega ofbeldið að breytast í líkamlegt. Þetta byrjaði þegar hún fór að sofa með glerflösku við hliðina á sér. Hún ásakaði mig um að vera að hitta aðrar konur, tala við þær og senda þeim skilaboð sem var bara bull. Hún sagðist hafa heyrt þetta frá öðrum en ég áttaði mig á seinna að það var bara lygi. Þegar ég svo sofnaði, barði hún mig í hausinn með glerflöskunni. Svo öskraði hún á mig: „Um hvað ertu að hugsa?”
Eftir einhvern tíma hætti ég að finna til. Ég var orðinn vanur sársaukanum, ég fann hann ekki lengur. Þá fór hún að auka á sársaukann, finna betri leiðir til að meiða mig. Eftir glerflöskuna tók hún upp hamarinn. Eftir það – hvaðeina sem hún gat fundið til að berja mig með.
Eitt sinn var það hleðslusnúra fyrir tölvu. Hún vafði snúrunni um úlnliðinn á sér og sveiflaði honum þar til hann endaði á höfðinu á mér. Blóð fór að spýtast út og fór um allt gólf. Ég spurði hana: „Í guðanna bænum, viltu hjálpa mér?” Jordan leit glottandi á mig og labbaði upp stigann hlæjandi: „Af hverju ferðu ekki og drepstu? Öllum er skítsama um þig.”
Svo tók hún upp hnífana. Hún skar mig. Einu sinni skar hún mig rétt hjá slagæð í úlnliðnum og mátti litlu muna. Svo var það sjóðandi vatnið. Ég var með þriðja stigs brunasár. Þegar ég vandist sársaukanum fór hún að upphugsa sársaukafyllri aðferðir. Eftir sjóðandi vatn…var þá ekki bara dauðinn eftir?
Ég var dauðhræddur við hana og hverju hún myndi taka upp á. Ég óttaðist að ef ég hreyfði við mótmælum myndi hún myrða mig. Ég fór á spítalann og sagði að ég hefði „dottið” eða að „sturtan var of heit.” Nágranninn hringdi stundum á lögregluna þegar hann heyrði öskur og ég afsakaði Jordan og laug. Það var ekki gott auðvitað, en ég gerði það til að bjarga lífi mínu. Ég var með mikla áverka og glóðaraugu. Hún setti stundum farða á mig til að hylja ódæðisverkin.
Ég fann hvernig líkaminn var að gefa sig. Ég léttist um 31 kíló í það minnsta. Eftir allt sögðu læknarnir mér að hefði ég ekki fengið aðstoð hefði ég bara tórað í tíu daga í viðbót þar sem mér hafði verið neitað um mat svo lengi og áverkarnir voru svo alvarlegir.
Þetta endaði allt í lok árs 2018 en þá kom lögregluþjónn í eftirfylgni heim til okkar og fór að spyrja mig spurninga. Þá kom þessi ógeðslegi sannleikur í ljós.
Áverkarnir voru svo hryllilegir á þessum tímapunkti og ég var svo máttfarinn því ég hafði lést svo svakalega. Ég hafði neitað öllu fram að þessu. Ég gat ekki haldið áfram.
Ef lögreglan hefði ekki átt afskipti af mér þarna væri ég sennilega látinn. Það er enginn vafi. Ég var svo heppinn – ég segi heppinn – að ég hafði á mér þannig áverka að sönnunargögnin voru sterk og ég sagði frá sem var til þess að hún var tekin í burtu.
Ég held að hvatinn hafi verið afbrýðisemi. Ég hafði verið náinn fjölskyldu minni og átti góða vini og hún þoldi það ekki. Hún tók allt sem hún gat. Ég man hún sagði einu sinni: „Ég ætla að rústa lífi þínu.”
Jordan sýndi aldrei neina eftirsjá. Þegar löggan kom að spyrja hana. Í myndbandinu frá löggunni sést alveg hversu sek hún er, en ég held henni hafi verið meira umhugað að láta ekki ná sér heldur en um það hvað hún gerði mér. Ég held hún hafi lýst sig seka fyrir dómi til að fá vægari refsingu.
Ég held að fólk sem beiti ofbeldi af þessu tagi gera það því það fær „kikk” út úr því. Þetta er eins og eiturlyf, fíkn. Því meira sem það beitir því, því meira heldur það að það sleppi…og það versnar og versnar og versnar. Það er eins og það sé í himnaríki en þú í helvíti. Þau fá það sem þau óska sér. Þessi alhliða stjórnun. Þú færð ekkert sem þú vilt og líf þitt verður verra og verra. Þar til allt kemst upp. Og þá fær það áfall.
Ég hafði heyrt um ofbeldi gagnvart karlmönnum í sambandi áður en ég kynntist Jordan. Ég vissi hvað hún var að gera og það væri slæmt, mjög slæmt. En ég vissi ekkert hvert ég ætti að snúa mér. Á meðan þessu stóð hefði ég ekki geta nefnt atriði sem hún var svo sannarlega sek um, því ég hafði ekki hugmynd, aldrei.
Ég reyndi ekki að komast úr aðstæðunum, eins fáránlega og það hljómar. Það var bara enginn séns að ég kæmist í burtu. Ég hafði ekkert. Og – við áttum tvö börn. Ég bara óskaði þess að þetta myndi hætta. Ef ég fékk einu höggi færra einn daginn var það bara frábær dagur. Þetta var bara svona.
Ég hafði áhyggjur af börnunum, að þeim liði vel. Þú getur aldrei sagt einhverjum að bara fara úr aðstæðunum. Það er það versta. Það besta sem þú getur gert er að segja: „Hey, ef þú vilt einhverntíma spjalla þá er ég til staðar.”
Jordan fékk sjö og hálfs árs fangelsisdóm í apríl árið 2018. Játaði hún stjórnandi og ógnandi hegðun í nánu sambandi og að hún hefði valdið líkamlegum áverkum.
Ég gat ekki brugðist við þessum fréttum. Ég finn lítið þessa dagana. Þegar fótboltaliðið mitt vinnur átti ég áður til að brjálast úr gleði, en í dag er ég bara „já, ókei.” Ég held að þetta sé útaf áföllunum sem ég hef orðið fyrir.
Ég fann auðvitað fyrir miklum létti og þegar ég vissi hún væri á leið í fangelsi gat ég loks horft um öxl og ekki séð neitt sem gæti raskað ró minni.
Börnin okkar vita ekki hvað hefur verið í gangi. Ég hef safnað saman upplýsingum sem þau geta kynnt sér þegar þau verða eldri. Það eina sem mun skipta mig máli er að þau séu þakklát fyrir hvernig ég brást við.”
Jordan er fyrsta konan í Bretlandi sem fer í fangelsi vegna ofbeldis gegn maka. Það er margt sem hindrar karlmenn að tala um slíkt ofbeldi af hendi konu. Lögreglan tekur hlutunum stundum heldur ekki alvarlega. Herferðir gegn ofbeldi sýna sjaldan karlmenn í þeirri aðstöðu. Það er ekki rétt. Hvað skiptir kyn máli í þessu samhengi?
Við hvetjum alla ofbeldisþola að kynna sér starf Bjarkarhlíðar