KVENNABLAÐIÐ

Hafdís Huld: „Forréttindi að geta haft dýrin frjáls í sveitinni“

Hafdís Huld Þrastardóttir er mörgum kunnug enda ein af okkar bestu söngkonum. Hafdís býr ásamt fjölskyldu sinni rétt fyrir utan Reykjavík í bleiku húsi sem líkist einna mest dúkkuhúsi að utan sem innan og þar hefur fjölskyldan komið sér vel fyrir. Þau stunda mikla útiveru og það er fjöldi dýra á litla sveitabænum.

Hafdís Huld (39) útskrifaðist frá London College of Creative Media árið 2006 þar sem hún stundaði nám í söng og tónsmíðum.

Aðspurð segir Hafdís að hún hafi sungið frá því hún muni eftir sér: „Ég var ung byrjuð að semja bæði lög og texta, þannig að það kom held ég fáum á óvart að ég skyldi leggja tónlistina fyrir mig.”

hafdis2

Hvernig hófst tónlistarferillinn?

Ég byrjaði ferilinn með hljómsveitinni Gus Gus sem unglingur og gerði með sveitinni tvær plötur og ferðaðist mikið við tónleikahald næstu 4 árin.

Ef þú hefðir valið annað en að vera söngkona hvaða starf væri það?

Ætli ég hefði ekki orðið leikkona, ég hef alltaf haft áhuga á leiklist líka.

Ætlar þú að vera í tónlist alla tíð, heldurðu?

Já, ætli það ekki Tónlistin hefur verið minn starfsvettvangur síðan ég var 16 ára og er svo stór partur af mér að ég á erfitt með að ímynda mér tilveruna öðruvísi. En svo er lífið alltaf að koma manni á óvart þannig að – hver veit?!

hafdis in

Þú giftir þig nýlega – segðu okkur frá því

Brúðkaupið okkar var þann 16. desember 2017 og það var dásamlega skemmtilegur dagur. Foreldrar mínir umbreyttu gróðurhúsinu sínu hér í Mosfellsdalnum í fullkominn sal fyrir ævintýralegt vetrarbrúðkaup, og mamma sem er blómaskreytir skreytti salinn svo fallega, alveg í okkar anda. Þegar við gengum inn söng svo kvennakórinn Léttsveit Reykjavíkur lagið Ár eftir Ár sem við Alisdair sömdum saman.

Eftir frábæran mat og lifandi tónlist fórum við hjónin ásamt öllum gestunum út á dansgólfið þar sem tengdamamma leiddi hópinn í gegnum skoska þjóðdansa við harmonikkuleik, en Alisdair er af skoskum ættum þannig að hann og margir af gestum okkar klæddust skotapilsum í tilefni dagsins.

Hvaðan færðu innblástur þegar kemur að innanhússhönnun?

Ég er voða lítið að plana hvernig þetta á allt að vera og er ekki mjög upptekin af tískustraumum, ég hef alltaf verið hrifin af gömlum hlutum og legg mikið upp úr því að heimilið okkar sé hlýlegt og barnvænt.

Eruð þið búin að vera lengi að vinna að draumaheimilinu?

Við keyptum húsið okkar árið 2012 og höfum verið smá saman að gera það upp síðan og erum ennþá að JErum t.d. þessa dagana að klára að byggja alvöru stúdíó hérna á Suðurá, sem hefur verið draumur í langan tíma.

Þú ert með dýr – hvaða dýr áttu og hvað er það besta við að eiga dýr?

Við erum með hænur, kanínu og kött að ógleymdum hundinum okkar honum Mosa. Svo er pabbi líka með hesta hérna á sömu jörð. Það eru forréttindi að vera með dýr í svona sveitaumhverfi þar sem þau eru geta verið frjáls. Okkur þykir mjög afslappandi að hafa dýrin í kringum okkur og dásamlegt t.d að horfa á hænurnar vappa hérna fyrir framan eldhúsgluggann.

Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?

Því er erfitt að svara því dagarnir eru almennt ekki eins, auðvitað byrja þeir alltaf á því að koma Arabellu í skólann og hleypa hænunum út og svona en svo fer það alveg eftir því hvaða tónlistarverkefnum ég er að vinna að hverju sinni. Núna er ég t.d. að undirbúa dagskrá fyrir tónleikaferð til Kanada sem hefst á morgun auk þess að spjalla við fjölmiðlafólk víðsvegar að úr heiminum vegna útgáfu nýju plötunannar minnar..

Þú varst að gefa út plötu – hvað heitir hún og hefur hún stef/stefnu sem hægt er að lýsa með góðu móti?

Hún heitir Variations og er fimmta sólóplatan mín (þá tel ég ekki barnaplöturnar með) þessi plata er frábrugðin mínum fyrri plötum að því leyti að á henni er ég að flytja mína útgáfur af lögum annara listamanna. Þarna er að finna svona folk/country útgáfur af lögum sem upphaflega voru flutt af listamönnum eins og Barry White, Tinu Turner og Queen.

Hvar getur fólk keypt plötuna?

Hérna heima er hægt að kaupa plötuna í verslunum Eymundsson og hjá Heimkaup og svo er hægt að heyra fyrstu tvær smáskífurnar inni á Spotify.

 

Ertu með Facebook og Instagram?

Já, endilega kíkið á mig þar!

https://www.facebook.com/Hafdismusic/

https://www.instagram.com/hafdishuld/

 

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!