Ung kona sem óskar nafnleyndar stundaði vændi um hríð í Reykjavík og segir hér sína sögu:
Líf mitt hefur ekki alltaf verið auðvelt og í raun bara mjög erfitt. Þó ég hafi alveg alist upp hjá góðum foreldrum sem vildu allt fyrir mig gera og í raun gerðu þau allt fyrir mig. Mamma mín og pabbi eru bæði mjög vel menntuð og metnaðargjörn.
Þegar ég var lítil var ég greind með hegðunarvanda og var greind með ADHD. Ég fór á lyf en var síðar tekin af þeim. Ég fór snemma frá mömmu og pabba, flutti frá þeim ég var bara 17 ára en þá hafði ég kynnst strák sem var eldri en ég og við byrjuðum að vera saman. Mamma mín og pabbi voru ekki sátt við þessa ákvörðun mína en það var fátt sem þau gátu gert því ég var búin að ákveða þetta og ég vildi þetta.
Þessi strákur var í rugli, það er að segja kærastinn minn, en ég var sjálf byrjuð að drekka en hafði ekki prófað neitt annað en vín. Ég var mjög hrifin af kærastanum mínum og ég vildi alls ekki að við myndum hætta saman þannig að ég fylgdi honum inn í hans neysluheim. Þarna var hann ekki byrjaður í mikilli neyslu en hann var að nota dóp og drakk líka. Ég fór að nota með honum og það varð alltaf meira og meira.
Við fórum bæði lengra inn í neysluna og gerðum allskonar hluti til að fjármagna fíkniefnakaup. Mest vorum við að stela úr búðum. Við áttum okkur samt markmið og það var að við myndum ekki byrja að sprauta okkur. Það kom þó að því og fyrr en varði vorum við bæði farin að gera það. Við urðum háð lyfjum, sömu og þeim sem ég hafði verið á þegar ég var yngri.
Neyslan var orðin dýr og við vorum djúpt sokkin inn í þennan heim, fíknin var sterk og við höfðum ekki efni á að fjármagna þessa neyslu sem við vorum komin í þrátt fyrir að við stunduðum það að vera óheiðarleg…þá var það bara ekki nóg.
Það var einhvernvegin þannig að allt snérist um að fá næsta skammt og ég man hvað okkur leið illa ef við áttum ekkert og heldur ekki neinn pening til að kaupa okkur. Stelpur á mínum aldri voru farnar að selja sig til þess að fjármagna neyslu og mér fannst það alltaf mjög slæm hugmynd, ég var viss um að ég myndi aldrei gera það – Selja mig? Ekki séns!
Fíknin varð það mikil og óviðráðanleg að ég gaf eftir að lokum og seldi líkama minn. Ekki einu sinni heldur oft. Ég seldi mig mönnum til að geta keypt mér næsta skammt og skammtinn þar á eftir. Í hvert skipti sem ég gerði það þá leið mér ömurlega en neyslan stjórnaði mér og ég réði ekki við það.
Þessi heimur er svo stór og það er verið að gera mjög ljóta hluti í honum. Ungar stelpur eru að selja líkama sinn til að fá dópið sitt. Í dag er ég nýkomin úr meðferð og mér gengur vel.
Þetta er samt allt baggi sem ég þarf að burðast með og á eftir að vera með hann á bakinu lengi. Sjálfsvirðingin fer. Það fer allt. Virðing fyrir líkama manns er allt í einu orðin engin. Hann hefur orðið söluvara og það til manna sem misnota sér oft stöðu stelpna sem eru í neyslu og á sama stað og ég var komin á.