Ingibjörg Gróa Gunnarsdóttir er stofnandi hóps á Facebook sem kallast „Aðstandur ástvina sem féllu fyrir eigin hendi.“ Hópurinn er ætlaður aðstandendum þeirra sem féllu fyrir eigin hendi og þar geta aðstendur minnst þeirra sem látnir eru, sagt sína sögu, leitað ráða og mætt skilningi og stuðningi á erfiðum tímum. Sjálf er Ingibjörg aðstandandi, hún missti bróður sinn í september árið 2014.
Ingibjörg Gróa segir:
Ég man að eitt það fyrsta sem kom upp í hugann þegar ég áttaði mig á hvað hefði gerst var það að eitthvað sem ég taldi mér svo fjarlægt hafði bankað upp á hjá mér. Flest okkar telja að sjálfvíg eigi sér bara stað innan viss hóps og var ég ekkert frábrugðin þeim.
Sjálfvíg spyr ekki um kyn, aldur eða stöðu eins og aðrir sjúkdómar. Sjálfsvíg er helsta dánarorsök ungra karlmanna á Íslandi og miðað við nýjustu tölur er u.þ.b. eitt sjálfvíg í hverri viku. Þrátt fyrir mikla vitundarvatningu í þjóðfélaginu yfir tíðni sjálfvíga er mikið um fordóma, skilningarleysi og vanþekkingu á málefninu.
Eitt það fyrsta sem fólk spyr þegar það heyrir af sjálfvígi er : Hvað gerðist? Af hverju gerði hann/hún þetta ? Og oftar en ekki fylgir með hvort einstaklingurinn hafi átt í einhverjum vanda með vímuefni.
Svo oftar en ekki fylgja yfirlýsingar um að einstaklingurinn hafi valið þetta og þessi svokallaða hegðun sé eigingirni. En rannsóknir sýna að meiri hluti þeirra sem falla fyrir eigin hendi áttu EKKI við vímuefnavandamál að stríða. Slíkar spurningar og yfirlýsingar reynast syrgjandi aðstandendum afskaplega erfiðar.
Myndirðu spyrja syrgjandi ástvin krabbameinssjúkling hvort viðkomandi hafði reykt? Eða hvort viðkomandi hefði verið í lyfjagjöf? Það er til staður og stund fyrir allt en að mínu mati eiga slíkar spurningar ekki rétt á sér meðal syrgjandi aðstanda, alveg sama hvaða sjúkdómur dró einstaklinginn til dauða.
Af hverju teljum við okkur eiga rétt á að hnýsast og koma með óviðeigandi yfirlýsingar tengdum geðsjúkdómum en okkur myndi aldrei detta í hug að koma með sambærilegar yfirlýsingar varðandi aðra sjúkdóma eins og t.d krabbamein eða hjartasjúkdóma? Hvar liggur munurinn þarna á milli?
„Aðgát skal höfð í nærveru sálar!“