Svava Ástudóttir, íbúi á Bræðraborgarstíg í Reykjavík skrifar á Facebook: Í dag hringdi sonur minn í mig sturlaður af hræðslu.
Hann kom heim eftir skóla í dag til að sinna hænunum sínum sem við höfum átt í tvö ár og hefur hann verið dugmikill hænsabóndi ásamt því að systir hans hefur sinnt því að selja eggin til góðra granna.
Það var vægast sagt skelfingar aðkoma sem drengurinn kom að. Það var búið að brjótast inní heimili hænsanna og slátra þeim hver af annarri. Ein fannst örend ofan á eggjunum sínum, önnur bitin í gegn út í horni önnur hafði náð að sleppa út þar sem brotist hafði verið inn og var slátrað á miðri lóðinni með tilheyrandi blóðslettum í snjónum og fiðri útum gjörsamlega allt.
Í snjónum eru fótspor eftir ágætlega myndarlegan hund. Það er hræðilegt að fylgja dauðaslóðanum hér um og ég á ekki orð til að lýsa því öðruvísi en „carnage.“
Ein hænan lifði ósköpin af, ein er horfin.
Ég vil lýsa eftir þessum hundi, vitnum að þessu og greyinu sem er einhver staðar þarna úti. Hún er alsvört. Ef hundurinn hefur komið með hana heim með sér vil ég benda eigendum að skila okkur dýrinu lifs eða liðnu svo börnin megi syrgja dýrin sem þau hafa alið undanfarin tvö ár.
Afsökunarbeiðni væri velkomin, samúð með börnunum væri kærkomin. Einnig biðla ég til hundeigenda að hafa þá í bandi.
Það hefur mikið tjón hlotist á Bræðraborgarstíg 23 og þetta er ekki í fyrsta skipti sem sami hundur leikur okkur grátt.
Í framhaldi af þessu set ég spurningarmerki við þennan hund. Hann hefur þurft að hafa mikið fyrir því að komast inn í hænsnahúsið.