Að skilja manneskju sem hefur búið við heimilisofbeldi er eiginlega ómögulegt. Nema, þú hafir, eins og þessi kona, verið í slíku sambandi.
Gefum Janice Fuller-Roberts orðið:
Þegar ég flúði ofbeldissambandið sem ég var í í hinsta sinn (já, ég fór og kom aftur) var eitt það fyrsta sem mínir nánustu spurðu var: „Af hverju sagðirðu okkur ekkert? Við hefðum getað hjálpað þér, við hefðum getað gert eitthvað?”
Og ég trúi þeim. Ef þau hefðu vitað hversu hörmulegt líf mitt var orðið hefðu þau sennilega gert sitt besta til að hjálpa mér. En þetta gerðist fyrir meira en tuttugu árum síðan. Í dag er ég heiluð, andlega heilbrigð og ég er komin yfir þetta. Ég get skoðað þetta í baksýnisspeglinum og séð að vinir mínir og fjölskylda hefðu hjálpað mér.
En á þessum tíma var þetta öðruvísi. Þú ert í hringiðu hlutanna, í miðju helvíti sem þú ert sannfærð um að þú hafir sjálf búið til og getur ekki séð nokkurn skapaðan hlut í réttu ljósi.
Ótti og skömm heltaka þig – stöðugt. Þegar þú horfir á vini og fjölskyldu sérðu ekkert nema háð og áfellisdóma. Þú veist hvað þeim finnst um konur sem dveljast í ofbeldissamböndum.
Ímyndaðu þér þetta: Þú átt æskuvin eða vinkonu. Þið hafið alltaf verið náin eða nánar en allt í einu eruð þið það ekki lengur. Þú áætlar að hún sé bara upptekin af nýja sambandinu sínu. Í fyrstu var hún það, vissulega. Þegar sambandið var nýtt fékk hún ekki nóg af honum. Hver einasta vökustund var helguð honum.
Á þessum tíma heyrðir þú enn í henni – hún hringdi í þig. Þrátt fyrir að hún væri einna helst að monta sig af nýju ástinni sinni skipti það engu máli. Hún var hamingjusöm.
Síðan hætti hún að hringja jafn oft. Og þegar þú hringdir í hana var hún annars hugar, alltaf að flýta sér. Sameiginlegir vinir áttu til að segja að þeir hefðu ekki séð hana lengi. „Æ, þetta er nýi kærastinn,” segir þú við þá. „Þau eru alltaf saman þessa dagana.”
Fjótt verður þú vön því að hún er fjarverandi og þú talar ekki við hana jafn oft. Þú saknar hennar en vilt ekki vera vinkonan sem er að koma upp á milli hennar og nýju ástarinnar.
Einn daginn rekstu á hana í búðinni og þér bregður við að sjá hvernig hún lítur út. Hún var alltaf svo metnaðargjörn hvernig hún klæddi sig, sérstaklega þegar hún fór út á meðal fólks. Nú er hún í joggingbuxum sem hún hefði aldrei látið sjá sig dauða í! Samt er hún þarna: Ekki bara í gömlum og lúnum buxum heldur eru þær skítugar líka. Hún er í stuttermabol, hárið á henni (áður fullkomlega til fara) er tekið upp í sorglegt tagl. Neglurnar eru ólakkaðar og óklipptar.
Hún lítur út fyrir að vera þreytt.
En þú ert svo glöð að sjá hana og faðmar hana þétt að þér. Hún stífnar upp eins og hún meiði sig. Þú sleppir henni og ert hissa. Svo horfir þú vandlega framan í hana.
Hún vill ekki mæta augum þínum. Varir hennar skjálfa lítið eitt og þær eru þurrar. Er þetta gamall marblettur á kinn hennar? hugsar þú. Nei það hlýtur að vera lýsingin hérna inni.
Þið skiptist á einhverjum orðum en hún er í raun ekki þátttakandi í umræðunum. Þú færð á tilfinninguna að hún vilji fara…að hún sé ekki í raun glöð að sjá þig. Þér líður óþægilega en getur ekki gert þér grein fyrir af hverju.
„Hvernig líður þér?” spyrð þú, og meinar það í alvöru.
„Vel,” segir hún hratt. „Bara mjög vel sko. Ég er bara að flýta mér. Þarf að drífa mig heim.”
„Ég ætla þá ekki að halda þér lengur.”
Eitthvað segir þér að henni líði alls ekki vel. Þú færð á tilfinninguna að þig langi til að faðma hana aftur að þér, en sleppir því. Gegn betri vitund hunsaru viðvörunarmerkin og sendir hana í burt. Maginn þinn segir þér að það sé eitthvað meira en lítið bogið við vinkonu þína sem var alltaf svo opin, lífleg, hress og falleg.
Hér er það sem þú veist ekki: Vinkona þín vill ekkert frekar en detta í fangið á þér og biðja um hjálp. En hún gerir það ekki. Hún getur það ekki. Hún skammast sín of mikið. Eins illa og þér finnst hún líta út, finnst henni hún líta verr út. Á tiltölulega stuttum tíma hefur kærasta hennar tekist að telja henni trú um að hún sé ljót, heimsk og einskis virði.
Vinkona þín reynir ekki lengur að klæða sig upp, að líta vel út af því að annaðhvort sakar hann hana um að hún sé að klæða sig upp fyrir „einhvern annan” eða hann segir henni að hún líti hvort sem er alltaf ömurlega út – svo hún hefur gefist upp á því.
Joggingbuxurnar eru orðnar hennar besta vinkona.
Hún hringir ekki lengur í neinn því hún skammast sín fyrir líf sitt. Þessi dásamlegi maður sem hún montaði sig af áður er að breytast í skrímsli.
Og hún veit að ef vinir hennar vissu hversu slæmt ástandið væri myndu þeir telja hana eins heimska og hann segir að hún sé. Kannski það sé svo. Hún elskar hann samt. Kannski er hún að fá nákvæmlega það sem hún á skilið. Að minnsta kosti hugsar hún svo.
Þú sérð hana ekki jafn oft því það er það sem ofbeldismenn gera: Einangra fórnarlömbin frá vinum og ættingjum. Þeir gera það rólega þó. Hann myndi aldrei segja að hún megi ekki hitta þig. Það er allt of afdráttarlaust og hann er mun klárari en svo. Í stað þess stjórnar hann henni. Hann fer að rífast við hana þegar hún kemur heim. Þannig, í næsta skipti sem þú býður henni út verður hún frekar heima til að forðast rifrildið þegar hún kemur heim. Stundum ásakar hann hana um að elska vini sína meira en sig. Þannig hún er heima til að hann verði rólegur og góður. Hann notar ástina sem vopn.
Þessi rifrildi sem hún gerir allt til að forðast? „Rifrildi” er ekki rétta orðið, ekki þegar hún endar sjálf á fjórum fótum á gólfinu. Í fyrstu var mest up hróp, öskur. Hún öskraði þá á móti, hún hafði alltaf beitta tungu. En þá varð hann vondur, sagði hluti sem virkilega náðu inn að beini. Svo tók hann orð hennar og sneri þeim upp í eitthvað allt annað. Og allan tímann var hann að spila fórnarlambið sem gat ekki skilið hvernig hún gat verið svona vond við hann þegar hann elskaði hana svo mikið. Það voru ásakanir og gagnásakanir, ímyndaðar senur sem hann bjó til í sínum sjúka huga. Að hún kynni að svara fyrir sig átti ekkert í tilfinningalega ofbeldið í honum.
Í fyrsta sinn sem hann kýldi hana var sálin hennar þegar barin í klessu. Ekki láta blekkjast af útliti þeirrar konu sem þú hittir í búðinni. Hún barðist alltaf til baka hér áður fyrr. Hún lamdi meira að segja til baka til að byrja með. En hann er sætti en hún. Sterkari en hún. Hann hefur barist allt sitt líf og hún var ekki einu sinni flengd þegar hún var lítil. Hún átti aldrei neinn séns gagnvart honum, hvorki líkamlega né andlega.
Þú spyrð þig, ef þetta er svona slæmt, af hverju sagði hún ekkert við mig? Ég var þarna! Við höfum verið vinkonur síðan við vorum litlar. Hún veit ég myndi hjálpa henni!
Veit hún það samt? Veit hún það í raun og veru? Eða horfir hún á þig, æskuvinkonuna, og man eftir því þegar þú sagðir: „Ég skil ekki af hverju konur fara ekki frá mönnum sem berja þær?”
Þú manst eftir atvikum þar sem heimilisofbeldi komst í hámæli í fjölmiðlum. Manstu hvað hún sagði þegar þið voruð úti að fá ykkur í glas? „Ef einhver lemur mig einu sinni er ég farin.”
Þú manst eftir þessu. Þrátt fyrir að hún viti að þú elskir hana og styðjir getur hún ekki annað en hugsað um viðbrögð þín, vonbrigðin í augum þínum ef þú virkilega vissir hvað væri í gangi. Þú verður að vita að hún vill ekkert frekar en fara úr þessum aðstæðum en hún veit ekki hvernig. Hún gæti líka verið þess fullviss að ofbeldismaðurinn myndi líka ráðast á þann sem reyndi að hjálpa henni. Mundu, hann er í huga hennar, meira að segja þegar hann er ekki að beita hana ofbeldi.
Treystu samt innsæi þínu. Þú þekkir vinkonu þína! Eftir að þú hittir hana í búðinni veistu að ýmislegt er breytt. Ekki vera hrædd við að halda sambandi við hana.
Hringdu í hana. Ekki segja strax að þú vitir að hún sé beitt ofbeldi eða þvíumlíkt. Ef ofbeldismaðurinn er heima þegar þú hringir mun hún ekki segja neitt af viti hvort sem er. Vertu kærleiksrík og ekki láta hana finna fyrir þrýstingi.
Segðu eitthvað á borð við: „Ég veit þú ert upptekin núna. Þegar þú hefur nokkrar mínútur aflögu hringdu í mig. Ég hef áhyggjur af þér og vil hjálpa þér. Ég elska þig.”
Hafðu símtalið stutt en hafðu það skýrt: Þú ert áhyggjufull, þú vilt hjálpa og þér þykir vænt um hana.”
Ef hún hringir ekki til baka, hringdu aftur. Reyndu að ná sambandi við hana. Reyndu að htta á hana þegar hún er ein eða í burtu frá honum. Mundu að markmiðið þitt er að hjálpa henni, ekki koma henni í frekari hættu.
Búðu þig undir að hún neiti þér. Skömm, sektarkennd, ótti og jafnvel ótti um öryggi þitt mun halda henni frá því að opna sig við þig. Minntu hana mjúklega á að ef hún er í hættu hafi hún enga ástæðu til að skammast sín. Þér þykir vænt um hana og þú virðir hana og vilt ekkert annað en hjálpa henni.
Raunveruleikinn er því miður sá að mjúklegt inngrip virkar ekki alltaf. Raunveruleg inngrip, svo sem lögregluheimsókn, virkar stundum betur. Í þeim tilfellum ekki reyna að grípa inn í það. Hafðu aðra vini og fjölskyldu með í ráðum. Leitaðu aðstoðar fagmanna. Láttu þá hjálpa þér að hjálpa henni.
Þú þarft að vita að konur sem búa við heimilisofbeldi fara u.þ.b. sjö sinnum frá ofbeldismanninum þar til þær fara fyrir alvöru.
Þrátt fyrir að vinkona þín flytji út getur verið að hún fari aftur til baka. Og þá þarftu að hugsa innilega um vináttuna ykkar. Þú verður vonsvikin, já. Reið jafnvel. Öll hjálpin þín, þú hjálpaðir henni að flýja. Reiði þín er skiljanleg en stærsta vopn ofbeldismannsins er hæfileiki hans að stjórna henni, stjórna huga hennar. Að komast úr klóm ofbeldismanns krefst mikillar þolinmæði, faglegrar hjálpar og mikillar vinnu. Þú þarft að halda áfram að elska vinkonu þína og styðja hana, jafnvel þó hún valdi þér vonbrigðum. Ekki dæma hana, það gerir illt verra.
Það er sársaukafullt að horfa upp á einhvern sem þér þykir vænt um verða fyrir ofbeldi heima fyrir. Það er líka erfitt að skilja af hverju konur fara aftur til þeirra manna sem meiða þær. En að fara í alvöru er erfiðara en fólk heldur. Ótti, fjárhagslegt tak sem þeir hafa á fórnarlömbunum og skömm eru fáeinar ástæður af hverju þær fara til baka. Ef börn eru í spilinu er málið jafnvel enn flóknara. Sumar konur hafa engan annan samastað. Það er erfitt að búa í athvarfi.
Lögin eru sem betur fer að breytast en mikið þarf að ganga á til að fá t.d. nálgunarbann. Sumar konur fara ekki bara vegna vonarinnar að þær lifi einn dag í viðbót.
Vinir og stuðningsaðilar fórnarlamba heimilisofbeldis þurfa að vera betur upplýstir um eðli heimilisofbeldis. Og við þurfum að reyna að útrýma fyrirframmótuðum hugmyndum um fórnarlömbin. Þau þurfa stuðning og samkennd. Ég lærði þetta á þann ömurlegasta hátt sem um getur. Ég dæmdi líka konur sem fóru ekki frá ofbeldismanninum. Og ég sat á þeim háa hesti mínum þar til maðurinn sem ég elskaði kýldi mig niður af honum.
Greinin er eftir blaðakonuna Janice Fuller-Roberts og er þýdd og endursögð með hennar leyfi. Janice skrifar á síðuna Suzyknew.com þar sem hún veitir konum ýmis ráð.