Er mengunin vandamál? Ekkert mál, málum bara snjóinn! Þetta gæti hafa heyrst á fundi þar sem yfirvöld í Mysky, rússneskum bæ í Síberíu tóku ákvörðun. Þau hafa hlotið mikla gagnrýni fyrir að fela drullugan snjó á leikvelli barna með málningu.
Fólkið tók að sjálfsögðu eftir þessu – börnin voru stríðsmáluð eftir að hafa farið út að leika sér. Íbúi póstaði myndbandi af þessu á YouTube sem hefur nú farið um allan heim. Svetlana Zelenina sem tók myndbandið sýnir hvernig hún snertir snjóinn og fingur hennar verða þaktir í hvítri slímugri drullu sem hún telur vera málningu.
Svo virðist sem einhverjir borgarstarfsmenn hafi verið að vinna á leikvellinum sem átti að vera vetrarparadís fyrir krakka. Þeir fundu engan hreinan snjó þannig þeir ákváðu bara að mála þennan sem var fyrir, til að fela sótið og öskuna sem kemur frá nálægum kolaverksmiðjum og grjótnámum.
Borgarstjóri Mysky neyddist til að afsaka sig við íbúa bæjarins: „Ég vona fólk fyrirgefi þetta og láti ekki skemma fyrir nýársskemmtunum,“ sagði Dmitry Ivanov í yfirlýsingu frá því í gær.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem rússnesk yfirvöld nota málningu til að fela kaldan raunveruleikann. Árið 2011 komst í hámæli þegar vinnumenn í borginni Saransk voru að spreyja grænni málningu á drullusvað í kringum nýjan spítala til að láta líta út fyrir að þar væri gras.