Kona sem óskar nafnleyndar skrifar: Mig langar að koma með þetta innlegg til umhugunar fyrir jólin og segja ykkur í leiðinni sögu af litlu stelpuskotti og hvernig hún upplifði sín jól.
Áður en lengra er haldið langar mig að benda á það að börn eru mjög næm á tilfinningar og andlega líðan þrátt fyrir að það sé reynt að breiða yfir það.
Þannig var það með stelpuna í þessari sögu og stelpan er ég.
Mamma mín missti manninn sinn ung frá tveim börnum ellefu árum áður en ég fæddist.
Hún komst aldrei yfir það áfall enda var ekki um neina sálfræði eða geðlæknisþjónustu að ræða á þeim tíma.
Hún átti alltaf mjög erfitt um jól og áramót, mamma var með stórt hjarta og vildi alltaf allt fyrir alla gera og var öllum góð.
Ég hef frá því ég man eftir mér verið mjög næm á tilfinningar fólks og man hvað ég tók inn á mig hvað mömmu leið illa út af einhverjum sem ég vissi tæpast hver var og vissi ekki alveg hvernig ég átti að vera. Sérstaklega man ég hvað það reyndi á þegar hún tók mig með út í kirkjugarð til að setja grenigrein á leiðið hans á aðfangadag.
Hún vildi auðvitað eins og allar mæður að börnin hennar ættu gleðileg jól.
Eldri systkin mín voru flutt að heiman en bróðir minn kom oftast um jólin og svo bjó amma hjá okkur en hún dó þegar ég var átta ára.Flest jól vorum við bara þrjú í kotinu.
En það sem er samt efst í minningunni er samt sorgin sem fyllti einhvernvegin hvern krók og kima.
Hver skildi svo vera besta og fallegasta jólaminningin?
Það er ekki allt skrautið, smákökurnar,maturinn og pakkaflóðið.
Það er friðurinn sem fyllti hjartað þegar við pabbi vorum búin að gefa kindunum seinni gjöfina, hann hafði lagt sig fram um að gefa þeim bestu töðuna og við stöldruð við í fjárhúsinu, horfðum á kindurnar sem röðuðu sér á garðann.
Það var algjör kyrrð og svo einstök ró yfir kindunum þegar þær gæddu sér á tuggunni.
Það er líka stundin þegar við gengum heim á leið í snjónum sem brakaði undir fæti í frostinu og sindraði eins og það hefði verið stráð yfir hann glimmeri.
Skrýtið að svona man ég þetta allaf þó örugglega hafi stundum verið snjólaust.
Nú veit ég ekki hvort það sem ég er að reyna að koma á framfæri með þessum pælingum kemst til skila en pointið er einfaldlega að skrautið, jólabaksturinn og gjafirnar er ekki endilega það sem býr til bestu jólaminningarnar.
Og líka þetta eins og ég sagði í upphafi maður felur ekki sorg eða aðrar tilfinningar fyrir börnum með því að skreyta yfir þær.
Hugsum til þeirra sem farnir eru með því að rifja upp allar fallegu og góðu minningarnar sem þau skildu eftir hjá okkur ekki láta söknuðinn og sorgina yfirskyggja það.