Kjör barna víða um veröld eru harla ólík eins og menn vita. Flest börn hér á landi búa sem betur fer við góðar aðstæður en þó ekki öll. Áföll í lífi barna geta verið margvísleg og misalvarleg. Fangelsisvist foreldra, föður eða móður, er þungbært áfall og því þyngra sem afplánun stendur lengur yfir er röskun á öllum högum barnsins því hún vegur að tilfinningum, samskiptum og ytri kjörum þess. Fangelsið er aðskilnaður barns og foreldris sem verður að bregðast við með einhverjum hætti. Ávallt verður að gæta þess að hagsmunir barnsins séu í fyrirrúmi.
Eftirfarandi texti er birtur með góðfúslegu leyfi Fangelsismála:
Það eru kannski ekki margir sem hafa leitt hugann að börnum hér á landi sem eiga foreldra í fangelsi, móður eða föður; jafnvel afa eða ömmu. Þessum börnum má ekki gleyma og mikilvægt er að hlúa að þeim eins vel og kostur gefst. Þau styrkjast ef þau finna fyrir því að hlýlega er til þeirra hugsað. Það getur verið erfiður tími í lífi barnanna þegar jól ganga í garð og þau vita af pabba eða mömmu í fangelsi. Þau eru ein með leyndarmálið sitt (pabbi/mamma er í fangelsi) og líður ekki vel með það.
Nú hefur svokallað Englatré verið sett upp í tólfta sinn í Grensáskirkju á fyrsta sunnudegi í aðventu. Þetta er samstarfsverkefni fangaprests og Grensássafnaðar. Fangaprestur kannar snemma meðal fanga hvort þeir vilji taka þátt í verkefninu og útskýrir það fyrir þeim. Flestir vilja taka þátt í því og eru þakklátir fyrir góðan hug fólks.
Á jólatré þetta eru hengd lítil spjöld í engilsmynd og tréð því kallað Englatréð. Á spjaldi þessu stendur leyninafn barnsins og aldur. Safnaðarfólk hefur síðan verið hvatt til þess að taka eitt spjald og finna litla gjöf handa viðkomandi barni og leggja hana síðan við tréð. Fangaprestur setur síðan nýjan jólamerkimiða á hvern pakka eins og væri hann hver annar jólasveinn (!) því hann veit hið rétta nafn barnsins, skrifar það á miðann og setur á gjöfina með kveðju frá vini eða vinkonu, eða jólasveininum. Englaspjöldin hafa alltaf runnið út því fjölmargir hafa viljað leggja málinu lið. Fjöldi spjalda skiptir tugum og stundum hefur þurft að hafa tvö spjöld á barn til að koma til móts við hinn mikla áhuga og velvilja safnaðarins. Verði gjafar skal stillt í hóf því það er hlýhugurinn að baki sem skiptir mestu.
Gjöfunum er síðan komið til viðkomandi barns þegar það heimsækir pabba eða mömmu í fangelsi – og ef ekki þá koma aðstandendur þess gjöfinni til barnsins. Gjöfin gleður ætíð og kemur þægilega á óvart – að fá gjöf frá ónefndum vini eða vinkonu eða sjálfum jólasveininum.
Englaspjöld þarf að klippa út, og setja þráð í.
Þetta verkefni hefur gengið framúrskarandi vel frá upphafi. Grensássöfnuður hefur tekið verkefninu af miklum kærleika og áhuga. Á engan er hallað þó að nafn Þuríðar Guðnadóttur, kirkjuvarðar í Grensáskirkju, sé nefnt. Hún hefur verið vakin og sofin yfir englatrénu og veitt margháttaða aðstoð á umliðnum árum. Fyrir það er þakkað af heilum huga. Sömuleiðis öllum starfsmönnum fangelsanna sem greiða götu þessa verkefnis.
Aðventukvöld Grensáskirkju verður haldið í kvöld, 2. desember, fyrsta sunnudag í aðventu, og því stjórnar sr. María Ágústsdóttir.