KVENNABLAÐIÐ

Innbrotsþjófur barði chihuahuahund illa í innbroti: „Það er eitthvað verulega mikið að hjá fólki sem gerir svona lagað“

Katrín Sigurjónsdóttir, eigandi hunds af chihuahua tegund, varð fyrir þeirri hryllilegu reynslu að brotist var inn hjá henni, á heimili fjölskyldunnar í Garði á dögunum.

Dóttir Katrínar og kærasti voru í húsinu þegar ókunnur komst inn.  Einhver kom inn í húsið þegar tengdasonurinn var í sturtu og varð hann þá var við að einhver ókunnugur var inni, því tíkin Draumey lét ófriðlega. Þetta átti sér stað að morgni til og telja þau að viðkomandi hafi verið að leita að lyklum til að komast inn seinna.

Viku seinna var brotist inn.

Draumey
Draumey

„Þetta gerðist eftir miðnætti. Dóttir mín og kærastinn voru steinsofandi, enda sofa fast. Ætli Draumey hafi ekki farið að gelta þegar þjófurinn kom inn. Hann lokaði hurðinni inn í íbúð og fór með hundinn inn í vaskahús. Við teljum að hann hafi lokað sig af, náð sér í kústskaft og farið að dúndra í hana. Ekki einu sinni, heldur oft. Í hauskúpuna, augað á henni. Það blæddi inn á augað og hún meiddist mjög illa. Hún missti þrjár tennur, það flísaðist upp úr kjálkanum. Eitt augað var í mikilli hættu en ég á góða frænku sem tók Draumey að sér, var bara með hana í gjörgæslu og bar í hana augndropa oft á dag, þannig það náðist að bjarga auganu. Hún var öll með sár hér og þar sem blæddi úr. Þetta var bara skelfilegt. Vaskahúsið var allt í blóði þegar lögreglan kom. Það var greinilegt að mikið gekk á.“

Auglýsing

Katrín segist ekki skilja og hafa aldrei heyrt um að það hafi verið lúskrað á dýri við innbrot, varnarlausri skepnu: „Hún hlýtur að hafa gjammað. En var ekki nóg að henda hundinum út eða eitthvað? Var nauðsynlegt að ganga í skrokk á honum? Maður er ekki að fatta þetta.“

Heldur Katrín áfram: „Ég get ekki einu sinni hugsað mér hvað þjófurinn hefði gert ef hann hefði orðið var við umgang. Manneskja sem gerir svona við dýr. Hún þarf hjálp. Að ráðast á eitthvað sem getur ekki varið sig. Það er eitthvað verulega mikið að, ég get varla orðið reið. Bókstaflega. Manneskja sem gerir svona er alvarlega veik, það er eitthvað mikið að. Ef einhver getur gert svona við varnarlaust dýr, hvar er hún þá stödd?“

„Hvernig er hægt að lúskra á dýri við innbrot?"
„Hvernig er hægt að lúskra á dýri við innbrot?“

Þegar dóttir Katrínar og kærastinn vöknuðu fóru þau fram. Þau sáu að hurðin var opin en voru viss um að hafa læst henni. Kærastinn sá mann labba framhjá en ákvað að láta hann eiga sig.

Þau fóru svo inn í vaskahús og fundu Draumeyju þar í blóði sínu. Dóttir Katrínar fór strax með hana á neyðarvaktina, sem betur fer. Hún var illa farin og blæddi úr gómum hennar. Hún var með blæðandi sár hingað og þangað. Tungan var bólgin og vaskahúsið leit skelfilega út, allt í blóði.

Katrín hafði áætlað að vera lengur á Spáni en dreif sig að sjálfsögðu heim. Hún ætlaði að koma heim 1. desember en kom mun fyrr eftir að hryllingurinn hafði átt sér stað.

draum1

„Það sem ég hef lært af þessu er að dauðir hlutir skipta nákvæmlega engu máli. Ég hef lent í eldsvoða og veit að hlutir eru bara hlutir. Auðvitað vona ég að þessi einstaklingur finnist. Hann á ekki að vera í umferð,“ segir Katrín.

Auglýsing

Nokkrum munum var stolið, s.s. erfðagripum frá móður Katrínar sem voru úr gulli. Hún er sjálf að hanna skartgripi úr silfri og telur að þegar þjófurinn hafði séð silfrið hafi hann haldið áfram að leita í vaskahúsinu og því fundið skartgripina sem móðir hennar átti: „Lögreglan er að rannsaka málið en segir að þeir viti sáralítið. Það ríkir engin afbrotaalda á Garði þessa dagana og lögreglan segir bara að afbrotatíðni færist í aukana í skammdeginu. Það sem var tekið hjá mér voru skartgripir ásamt mörgu öðru. Til dæmis verkfæri sem maðurinn minn myndi þekkja hvar sem væri.“

„Mér er sama um þessa dauðu hluti, en blessað dýrið. Hugsanirnar, skelfingin sem hún hefur upplifað étur mig að innan. Ef þessi einstaklingur getur farið svona illa með saklaust dýr, hvað annað er hann fær um?“

draum00

Í dag er Draumey ótrúlega brött miðað við skelfilega reynslu: „Við fórum í fyrsta sinn í dag innan um margmenni. Í afmæli. Hún var mjög hugrökk þrátt fyrir að vera pínulítið stressuð innan um karlmenn. Hún var ótrúlega hugrökk. Heilsaði frænda mínum og fleirum, kannski pínu vör um sig en samt ótrúlega brött miðað við ömurlega reynslu.“

Katrín segir að Draumey sé búin að jafna sig næstum að fullu líkamlega, en andlega er ekki gott að segja: „Mér finnst henni líða vel í dag.“ Auðvitað hefur þetta áfall haft mikil áhrif á fjölskylduna og segir Katrín þau vera enn að átta sig á hlutunum og jafna sig.

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!