Dagmar Ýr, móðir Gunnars Holgers, sem er sex ára og lenti í alvarlegu einelti skrifar: Ætli það sé ekki kominn tími á að ég uppfæri alla hvernig málin eru búin að ganga síðan á föstudaginn.
Ég er búin að fá mikið af fallegum skilaboðum, ráðleggingum og hjálp. Orð fá því ekki lýst hversu þakklát ég er.
Ég fór á fund með Jóni Þór Ólafssyni og Halldóru Mogensen á Alþingi 26.nóvember og í framhaldi af því á fund með skólastjórnendum skólans.
Foreldrar barna í skólanum eru búnir að setja sig í samband við mig og eru allir aðilar sem að þessu koma af vilja gerðir til þess að aðstoða.
Allt er nú á réttri leið! Gunnar er enn kvíðinn fyrir því að fara í skólann, enda er það ekki eitthvað sem lagast á einni nóttu. Mörg börn í skólanum eru að snúa bökum saman hinsvegar og gera það sem þau geta til þess að skóladagurinn sé góður hjá drengnum.
Ég vil minna á það að við höldum umræðunni á málefnalegum nótum og pössum uppá orðaval okkar, bæði í skrifum og tali. Börnin okkar heyra og sjá hvernig við tölum um og við annað fólk. Við þurfum að vera fyrirmyndir þeirra í einu og öllu!
Við bætum ekki ástandið með því að tala illa um foreldra, gerendur eða skólann.
Ég hef ekki og ætla ekki að nefna hvaða skóli þetta er, enda er skólinn ekki umræðuefnið, heldur einelti.
Ég hef tekið eftir því að foreldrar eru margir hverjir ráðalausir hvernig sé best að ræða þessi mál við börnin sín á góðann og uppbyggilegan hátt. Það er eitthvað sem skólayfirvöld og ráðherrar þurfa að vera duglegri við að fræða okkur um.
Að mínu mati þyrfti og ætti fræðsla að vera í skólum landsins, jafnvel í skólabyrjun.