Stundum er raunveruleikinn ótrúlegri en allur skáldskapur: Hinn 95 ára Budh Ram, frá Rajasthan í Indlandi, kom fjölskyldu sinni virkilega, virkilega á óvart, þegar hann vaknaði upp þegar þvo átti „líkið“ eftir að læknir hafði úrskurðað hann látinn.
Budh hafði kvartað undan brjóstverk á laugardaginn var og svo leið yfir hann. Þegar fjölskyldan fann hann var læknir kallaður til og eftir rannsókn á hinum 95 ára karlmanni sagði hann að hann væri allur.
Fjölskyldan lét því ættingjana vita og var prestur fenginn til að flytja lokaorð. Samkvæmt venju rökuðu karlmennirnir í fjölskyldunni af sér hárið og undirbjuggu svo hinn hinsta þvott. Þegar þeir fóru að hella köldu vatni á hann, urðu þeir afar skelkaðir þegar „líkið“ vaknaði til lífsins.
Elsti sonur Budh, Balu, segir í viðtali við The Times of India: „Presturinn hafði hafið helgiathöfnina og rakari rakaði hárið af mönnunum í fjölskyldunni. Við ætluðum að baða líkið en þá fór hann að skjálfa. Allir fengu hálfgert áfall, en hann var settur í rúmið til að hlýja sér og svo stóð hann fljótlega upp og fór að spjalla við fólkið. Hann andaði eins og venjulega og sagðist bara hafa fengið brjóstverk og áætlað að sofa hann af sér. Þetta er ekkert annað en kraftaverk!“