Afar ungur flugfarþegi fékk sérstaka veitingaþjónustu um borð Philippine Airlines í vikunni. Flugfreyjan Patrisha Organo gaf ungbarni brjóst eftir að þurrmjólk móðurinnar kláraðist.
Patrisha heyrði „grát sem lætur þig gera allt til að hjálpa“ eftir að flugvélin var komin í loftið, skrifaði hún á Faceboook. „Þú þekkir muninn á gráti vegna hungurs, gráti vegna svefnleysis, eða gráti af öðrum ástæðum,“ sagði Patrisha sem er með níu mánaða dóttur heima.
Þegar grátklökk móðir barnsins sagðist vera búin með þurrmjólk barnsins, kom Patrishia með skyndilausn: „Ég fékk alveg sting í hjartað. Það var engin þurrmjólk um borð. Ég hugsaði með mér að það væri eitt sem ég gæti boðið og það væri mín eigin mjólk.“
Sat Patrisha með litla barnið á brjósti á ganginum þar til það sofnaði. „Móðirin þakkaði mér innilega,“ sagði hún.
Patrisha fékk svo stöðuhækkun frá flugfélaginu í kjölfarið. Stór dagur hjá henni!