Vissir þú að brjóstverkur er ekki eitt algengasta einkenni hjartaáfalls hjá konum? Á síðustu áratugum hafa vísindamenn áttað sig á að einkenni hjartaáfalls hjá konum eru ólík einkennum hjá körlum. Árið 2013 var gerð rannsókn á 515 konum sem höfðu fengið hjartaáfall. Algengustu verkirnir voru ekki brjóstverkur. Nærri því 80% kvennanna höfðu upplifað að minnsta kosti eitt af eftirfarandi einkennum:
Óvenjuleg þreyta sem varir í nokkra daga eða skyndileg, mikil þreyta
Svefntruflanir
Kvíði
Svimi
Að vera andstutt
Meltingar- eða vindverkir
Verkur í efra baki, öxl eða hálsi
Verkur í kjálka eða sem leiðir upp í kjálka
Þrýstingur eða verkur í miðju brjósti sem getur leitt niður í hendi
Könnun sem gerð var árið 2012 af tímaritinu Circulation leiddi í ljós að aðeins 65% kvenna sögðust hringja í neyðarlínuna (112) ef þær teldu sig vera að fá hjartaáfall. Þrátt fyrir að þú sért ekki viss – farðu á bráðamóttökuna strax! Hvað er eðlilegur verkur og hvað er óeðlilegur verkur fyrir þig? Ef þú hefur ekki upplifað einkennin áður, ekki hika áður en þú leitar þér hjálpar. Ef þú ert ekki sátt við mat læknisins, fáðu álit annars.
Hjartaáfall kvenna yfir fimmtugt
Konur upplifa miklar líkamlegar breytingar í kringum fimmtugsaldurinn sem er aldur tíðahvarfa. Estrógenmagnið minnkar og er það hormón sem hjálpar til við að halda hjartanu heilbrigðu. Eftir að konur fara í gegnum tíðahvörf eru auknar líkur á hjartaáfalli.
Því miður er það svo að konur sem fá hjartaáfall eru líklegri til að deyja en karlmenn. Þess vegna er enn mikilvægara að kynna sér málið og einkennin til að vera meðvituð um hjartaheilsuna eftir tíðahvörf.
Einkenni sem einnig ber að hafa í huga hjá konum yfir fimmtugt:
Mikill brjóstverkur
Verkir eða óþægindi í annari eða báðum höndum, baki, hálsi, kjálka eða maga
Hraður eða óreglulegur hjartsláttur
Aukin svitamyndun
Dulið hjartaáfall
Dulið hjartaáfall er eins og hjartaáfall, nema hvað það á sér stað án einkenna. Með öðrum orðum: Þú gætir ekki áttað þig á að þú hafir fengið hjartaáfall. Rannsóknarstofnun Duke University Medical Center í Bandaríkjunum áætlar að um 200.000 Bandaríkjamenn fái hjartaáfall á hverju ári án þess að gera sér grein fyrir því. Því miður er það þó svo að áföllin geta valdið hjartaskaða og auka áhættuna á hjartaáföllum í framtíðinni. Þessi duldu áföll eru algengari meðal fólks með sykursýki og sem hefur sögu af hjartaáföllum.
Einkenni þessara áfalla:
Mild óþægindi í brjósti, höndum eða kjálka sem fara eftir hvíld
Að vera andstuttur og þreytast auðveldlega
Svefntruflanir og þreyta
Magaverkur og brjóstsviði
Rök húð
Ekki verður nægilega ítrekað að fara í reglulega læknisskoðun og hreyfa sig nóg. Það eykur bæði lífslíkur og vellíðan.