KVENNABLAÐIÐ

Til að verða edrú þarf hún hjálp. Hjálp sem hún fær ekki

Erla Björg skrifar: Í dag ákvað ég loksins að reyna að fá aðstoð vegna kvíða. Er búin að vera að bugast síðustu vikur og mánuði. Ég fékk nóg eftir gærkvöldið þegar ég gat ekki fyrir mitt litla líf prentað út glósur því það var of mikið mál. Svo ég fór upp á geðdeild í góðri trú um að fá einhverja aðstoð. Sem ég svosem fékk ekki því eg gafst upp a endanum þegar það hafði enginn læknir komið og kallað einhvern inn eftir tæpa þrjá tíma en það er annað mál.
En á meðan ég beið, fékk ég að kynnast þessari konu. Hún er nýorðin amma en hefur ekki fengið að hitta barnabarnið vegna ástands hennar. Hún er sprautufíkill og alkóhólisti. Hún heldur til í Konukoti og byrjar alla daga á að fara á Vog og athuga með umsókn sína þar, síðan fer hún á geðdeild og sækir um þar.

Auglýsing
Dagurinn í dag var aðeins öðruvísi hjá henni vegna þess að á Vogi hnígur hún niður og er flutt með sjúkrabíl á hjartagátt. Þaðan er hún útskrifuð því hjartaritið kom vel út. Hún er samt samt hjartveik. Hún fer þá yfir á geðdeild til þess að reyna að fá innlögn þar. Sem hún ekki fékk. Þannig að það eina sem hún gat gert var að bíða til 17 eftir að Konukot myndi opna aftur.

Hún gramsaði í tösku sem hafði að geyma megnið af hennar veraldlegu eignum. Í von um að geta boðið mér eitthvað úr henni fyrir þá góðmennsku að tala við hana. Svo blandaði hún sér spritt í brúsa og hafði orð á því að hún væri svo þakklát fyrir að hafa fengið lyf við fráhvörfum á hjartagátt því þá þarf hún ekki að drekka sprittið sitt næstu klukkutímann.

Auglýsing

erla bj st
Þarna sem við sátum og ræddum saman fékk ég að kynnast hennar lífi örlítið og upplifði ég það vonleysi sem skein úr augunum hennar. Hún sagði mér frá því sem hún þurfti að þola í æsku, hvernig hún byrjaði að drekka um átta ára gömul og hvernig líf hennar hafi verið. Hún talaði mikið um börnin sín fimm og þá sorg að hafa misst þau frá sér vegna neyslu. Hún á sér þá ósk heitasta að hitta barnabörn sín áður en hún deyr. Hún sagði að læknirinn hafi gefið sér um tvö ár en með því líferni sem hún lifir þá á hún ekki marga mánuði eftir.

En til þess að verða edrú þarf hún hjálp, sem hún fær ekki. Ef hún drekkur ekki fer hún í hjartastopp. Svo hún drekkur til þess að lifa af, en er í leiðinni að drepa sig hraðar.
Búum við virkilega í landi þar sem fullorðin kona í hennar stöðu er vísað á götuna? Vegna þess að hún er „bara“ fíkill. Erum við virkilega að senda okkar veikasta fólk út í dauðann? Ætlum við ekkert að fara að vakna og sjá hversu brenglað þetta heilbrigðiskerfi er og þá sérstaklega geðsviðið?
Myndu krabbameinssérfræðingar vísa krabbameinssjúklingi í burtu því krabbinn væri orðinn of dreifður? Eða neita lyfjameðferð vegna þess að sjúklingurinn hefði áður gefist upp í miðri meðferð? Setja hana aftast í biðröð eftir lyfjum.„Já, þú ert númer 601 í röðinni. Komdu aftur eftir ár og athugaðu hvort þú fáir meðferð.“

Svona gengur þetta ekki og fólk er að deyja bíðandi eftir aðstoð sem aldrei berst!! Ég get ekki hugsað til þess hvað eru margir í hennar stöðu. Sjá þetta vonleysi og sársauka sem skín úr augum þeirra ?? hjálpum þeim sem minna mega sín og gefum fólki tækifæri til þess að lifa. Ást og friður ❤❤

Ps. Þessi mynd var tekin með góðfúslegu leyfi hennar og vildi hún endilega vekja athygli á þessu málefni.

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!