Helga Rún skrifar: Í gær, laugardaginn 13 október varð ég vitni að því hvað fólk getur verið ósanngjarnt og hræðilegt.
Ég var að vinna niðri í bæ hjá Ingólfstorgi og þar sem ég vinn í hjarta Reykjavíkur hef ég séð allskonar hluti og allskonar fólk…gærkvöldið toppaði þó allt.
Ég var að vinna og fór út til að fá mér smá ferskt loft. Ég sá konu á fertugsaldri, á að giska, í ferlegu ástandi. Hún var með fullan poka af allskonar mat og tveimur bjórum.
Konan reyndi að opna leigubíl í leigubílaröðinni hjá Hlöllabátum. Fyrsti leigubíllinn læsti hurðum og yrti ekki á konuna en opnaði fyrir öðru fólki. Þegar konan sá að hún mætti ekki fara inn en annað fólk var boðið velkomið varð hún reið og fór í einhvernskonar vörn. Hún söng eitthvað lag af fullum krafti.
Allir fóru að horfa á hana og sumir tóku jafnvel myndir/myndbönd því þetta var „svo fyndið.”
Nokkrum mínútum síðar reyndi hún að komast inn í annan leigubíl og er ég horfði á það ýfði það upp í mér reiðina. Maðurinn sem keyrði þennan leigubíl uppnefndi hana og sagði henni að„fokking drullast í burtu“ og ekki nóg með það þá KEYRÐI hann á hana og allan matinn hennar sem varð til þess að pokinn hennar rifnaði og hún liggjandi á jörðinni alveg kyrr.
Ég ætla að taka það fram að hún var ekki að gera neitt, hún reyndi að opna og bankaði svo á gluggann, fyrir það fær hún hvað? Að láta keyra yfir sig?
Það var öllum drullusama, enginn yrti á hana, það var bara eins og hún hafi bara verið ósýnileg fyrir öllum nema mér. Ég fór til hennar með plastpoka og reyndi að tala við hana. Ég sá að hún var pissublaut, vissi ekkert hvar hún væri eða hvað væri að gerast en hún vissi að hún vildi ekki vera þarna.
Ég týndi allt upp og í pokanum voru rækjur, kókómjólk, tveir bjórar, harðfiskur og allskonar vörur sem maður bjóst ekki við að finna. Ég endurtók með kökk í hálsinum að þetta verði allt í lagi og hún sat þarna, þakkaði mér fyrir og grét. Hún dauðskammaðist sín og reyndi að fela pissubleytuna, henni langaði ekki að vera þarna.
Eftir þetta hljóp ég inn í búð og náði í símann minn og hugsaði mig um í smá stund hvort ég ætti að reyna að fá leigubíl til að keyra hana í athvarf eða fá lögregluna til þess…ég ákvað að hringja í lögregluna þar sem það hafði einn leigubíll nú þegar keyrt á konuna.
Lögreglan svaraði og þegar ég reyndi að segja einhvað um þessa konu þá var gripið fram í fyrir mér og spurt hvort þetta væri um konuna í ástandinu niður í bæ Ég svaraði því játandi og spurði hvort það væri ekki hægt að skutla henni á athvarf eða einhvað. Einnig tók ég fram að að leigubílstjóri hefði keyrt á hana og að það væri óásættanlegt og þá sagðist einstaklingurinn hjá neyðarlínunni hafa frétt það og skellti svo á mig.
Ég sat og beið eftir lögreglunni og þegar lögreglan kom á svæðið sátu þeir með konunni og spurðu hana hvort hún vildi fara heim til sín eða í fangaklefa. Á meðan þetta spjall var í gangi stóðu nokkrir strákar þarna og tóku upp myndband og hlógu.
Hún svarði engu og dauðskammaðist sín. Lögregluþjónarnir settu hana í járn og inn í bíl.
Hún var engin ógn, hún var kona á ógeðslegum og týndum stað og þarna vissi hún það. Hún skammaðist sín og það eina sem hún talaði um var hennar heittelskaði sonur.
Ef þú værir í sömu stöðu, fastur í líkama sem heimtar dóp, komin það langt að þú ert stödd í miðbæ Reykjavíkur og að reyna að komast inn í leigubíl og heim – bara vegna þess er keyrt á þig og allan matinn þinn. Myndir þú ekki vilja að einhver byði fram hjálp sína?
Myndi þér líka við að allir væru starandi á þig, takandi myndir eða myndbönd af þér hlæjandi? Finnst þér það viðeigandi??
Eftir þetta atvik komu bæði Íslendingar og túristar og sögðu það sama, þetta er EKKI í lagi, það er ÖLLUM drullusama og það er ALDREI neitt gert til að reyna að stoppa þetta eða hindra því að þetta gerist.
Þetta var klárlega eitt af því erfiðasta sem ég hef séð og mig langaði að deila því með ykkur. Ég er svo sár og reið út í samfélagið og alla í gær sem voru vitni að því sama og ég en gerðu ekkert og jafnvel gerðu grín að þessu.
Það þurfa allir að átta sig á hvað þetta er hræðilegt og því meira sem fólk áttar sig á því, því meira getum við gert. Þessi kona, svona fólk er ekkert öðruvísi en þú! Eini munurinn er staðurinn sem við erum á í lífinu, annars er ekkert sem er öðruvísi. Við erum öll eins og við munum alltaf vera eins, tökumst öll í hendur og sönnum fyrir öllum og okkur sjálfum að það er hægt að gera eitthvað í þessu, þó það sé ekki nema eitt bros, eitt góðan daginn, góðverk eða hvað sem það er. Einstaklingar í þessari stöðu og heimilislausir eiga alveg jafn mikið skilið og öll þið hin! Opnið augu ykkar fyrir náunganum. Ekki vera blind á það sem betur má fara í samfélaginu og leggðu þitt af mörkum!