Viktoria Marinova, sjónvarpsfréttakona í Búlgaríu, fannst látin í almenningsgarði á laugardag, þriðji fréttamaðurinn í Evrópusambandinu sem myrtur hefur verið á þessu ári. Viktoria var aðeins þrítug en hafði flutt fréttir af spillingu í sjóðum Evrópusambandsins stuttu áður en hún fannst myrt og hafði henni verið nauðgað á hrottalegan hátt við Danube ána.
Saksóknarinn Georgy Georgiev segir að Viktoria hafi látist vegna höfuðáverka og hún hafi verið kyrkt. Vísbendingar bentu til einnig til nauðgunar. Síminn hennar, bíllyklar, gleraugu og eitthvað af fötum hennar voru tekin. Var líkið nær óþekkjanlegt vegna áverkanna.
Var Viktoria aðalþula daglegra mála í þætti sem kallast Detector á sjónvarpsstöðinni TVN, sem er ein vinsælasta stöðin í norðurhluta Búlgaríu.
Í þætti sem fluttur var þann 30. september síðastliðinn tók Viktoria viðtal við tvo rúmenska blaðamenn sem rannsökuðu fjölda stjórnmálamanna og viðskiptamanna fyrir spillingu sem vörðuðu sjóði Evrópusambandsins. Fyrir þáttinn hafði búlgarska lögreglan haldið Rúmenunum í stutta stund.
Innanríkisráðherrann Mladen Marinov segir enga sönnun fyrir því að morðið á Viktoriu tengist fjölmiðlastörfum hennar: „Þetta snýst um nauðgun og morð.“
Búlgörsk yfirvöld sem og almenningur eru í áfalli vegna málsins. Ekki er talið að Viktoria hafi fengið neinar hótanir er tengdist starfi hennar, en samstarfsmenn eru uggandi og óttast um öryggi sitt og telja að um sé að ræða ógnvænlega hótun.
Viktoria skilur eftir sig lítið barn.
Ein þekktasta fjölmiðlakona Möltu, Daphne Caruana Galizia, sem hafði unnið að rannsóknum á Panamaskjölunum var myrt þegar bílsprengju var komið fyrir í bíl hennar sem hún leigði. Einnig var rannsóknarblaðamaðurinn Ján Kuciak og kærasta hans skotin til bana í Slóvakíu.