Alma Rut skrifar: Þegar þú fæddist var það ekki þín ákvörðun sem réði því hvernig þú myndir verða, hvaða fjölskyldu þú myndir eiga eða hvernig lífið ætti eftir að vera. Þú bara fæddist og það var nákvæmlega ekki neitt sem sagði til um það að einhver annar ætti meiri tilverurétt heldur en þú eða að þú ættir meiri tilverurétt heldur en einhver annar. Það sem varð úr þér í framhaldinu var kannski líka ekki eitthvað sem þú ákvaðst sjálf/ur því málið er að samfélagið hefur miklu meiri áhrif á líf þitt en þú gerir þér grein fyrir og hefur haft lengur en þig grunar.
Því miður eru miklir fordómar, þeir sem hafa fengið á sig stimpil eiga oft erfitt með að losna við hann af því að það eru fordómar allstaðar.
Þú borgaðir skatta allt þitt líf, varst dugleg/ur að vinna en allt í einu hrundi allt í kringum þig. Áföll eða sjúkdómar höfðu áhrif, á endanum þegar þú gast ekki unnið lengur þá féllstu loks á að sækja um örorkubætur og þar kom fyrsti stimpillinn.
Í framhaldinu leitaðir þú í áfengi bæði til að drepa tímann, líka af því þér leið illa og af því að þú áttir erfitt með að sætta þig við það líf sem var framundan…þar með kom stimpill númer tvö og stimpill númer þrjú.
Sjálfstraust þitt hrundi – þú fórst að drekka meira og þú hættir að ráða við það, þú misstir tökin en þú varst verulega óheppin/n, þú greindist með annan sjúkdóm sem var sá „stimplaðasti“ af öllum, alkóhólisti.
Framhaldið var svart – þú misstir íbúðina, reyndir að finna þér minni íbúð því hin var of dýr en enginn vildi leigja þér þar sem að þú barst það með þér að vera „ógæfumaður/ógæfukona”- stimplaður ógæfumaður, framfærslan þín var af skornum skammti og það var erfitt fyrir þig að púsla öllu saman svo að þú gætir borgað af öllu. Á endanum áttir þú ekki heimili og útkoman varð fjórði stimpillinn.
Þú varst farin/n frá því að vera „venjulegur” borgari í að vera „útigangsmaður”-„róni”- „heimilislaus”- „aumingi”- „vesalingur”- „öryrki” og í þokkabót alltaf fyrir öllum, allsstaðar.
Þú labbaðir á vegg, fólk sem þekkti þig áður vildi ekki heilsa þér, foreldrar tóku sumir sveig með börnin sín framhjá bekknum þegar þú sast þar og það sem þú áttir ekki að heyra – það heyrðir þú.
Á þessum tímapunkti, í þessum aðstæðum, á þessum stað í lífinu átti samfélagið að taka utan um þig, byggja þig upp, hjálpa þér og standa með þér en sú var ekki raunin. Þess í stað var þér refsað enn frekar, refsað fyrir það að hafa fengið sjúkdóm.
Þú upplifðir þig einskis virði, ef þú stóðst undir syllunni í Fógetagarðinum var þér hent í burtu, þú reyndir að komast inn í stigagang einhversstaðar til að hlýja þér en þar var þér líka hent í burtu, þú fékkst hvergi að vera í friði, allstaðar var einhver sem fleygði þér í burtu. Þér var meira segja vísað í burtu úr eina neyðarskýlinu, því næturathvarfi sem var þitt allra seinasta úrræði. Þú varðst úti.
Þetta er dæmi saga, skrifuð út frá því sem ég hef heyrt, svona er Ísland, akkúrat svona er verið að koma fram við fólk. Það er verið að brjóta svo illa á mannréttindum beint fyrir framan nefið á okkur. Á meðan er verið að spreða peningum í hluti sem skipta bara akkúrat alls engu máli.
Hvar er forgangsröðunin? Af hverju er fólk ekki sett í fyrsta sæti? Af hverju er verið að koma svona illa fram við samborgara okkar? Fólk sem hefur nákvæmlega sama tilverurétt og þið, fólk sem er bara ekki neitt öðruvísi en þú, fólk sem er brotið á aftur og aftur og aftur. Af hverju er ekki fundin lausn, af hverju taka stjórnvöld ekki ábyrgð? Af hverju er þetta allt svona ljótt?