Leikarinn ástsæli Burt Reynolds, stjarnan með yfirvaraskeggið dó fimmtudaginn 6. september. Hann var 82 ára að aldri. Burt var frá Georgíuríki og þekktastur fyrir hlutverk sín í „Smokey and the Bandit“ og „Boogie Nights.“
Dánarorsökin var hjartaáfall.
Burt var heimsþekkt kyntákn í hlutverkum sínum í bíómyndum en reyndi einnig leikstjórn. Áður var hann fótboltastjarna. Hann braut ýmis viðmið, m.a. sat hann fyrir nakinn í Cosmopolitan tímaritinu árið 1974.
Leikarinn hafnaði nokkrum hlutverkum á lífsleiðinni sem hefðu getað gert hann að enn stærri stjörnu, allt frá James Bond til Hans Solo í Star Wars. Einnig var hann líklegastur til að fá hlutverk Michael Corleone í „The Godfather“ eftir Francis Ford Coppola árið 1972. Hann sá eftir þessu í viðtölum en sagðist hafa valið hlutverk sem voru skemmtilegust, ekki mest krefjandi.
Burt fékk Óskarsverðlaunatilnefningu árið 1998 fyrir bestan leik í aukahlutverki eftir að hafa leikið klámmyndaframleiðanda í kvikmyndinni „Boogie Nights,“ þrátt fyrir að honum hafi mislíkað að leika í myndinni þar sem hún sýndi klámbransann í jákvæðu ljósi.
Burt átti við hjartavandamál að stríða og fór í eiturlyfjameðferð árið 2009. Sagðist hann vera háður verkjalyfjum eftir bakaðgerð.