KVENNABLAÐIÐ

Veistu hvað…?!

Óli Árna fjölskylduráðgjafi skrifar: Sumir ganga svo langt að kalla slúður og kjaftasögur þjóðaríþrótt okkar Íslendinga. Flestir kannast við að setjast niður á kaffistofunni, í afmælisveislunni eða saumaklúbbnum og taka þátt í sögustund um hana Jónu eða hann Sigga. Stundum er bara setið og hlustað, jafnvel kinkað kolli eða skellt upp vanþóknunarsvip. En stundum er tekið þátt af fullum krafti og jafnvel bætt í þegar svo ber við.

Auglýsing

En hvers vegna erum við að taka þátt í þessu tali um aðila sem ekki eru til staðar til að segja satt og rétt frá? Hversvegna förum við niður á það plan að tala illa um aðra einstaklinga og oftar en ekki með að leiðarljósi heimildir sem borist hafa mann frá manni og tekið stórkostlegum breytingum á leiðinni?

Oft er það svo að einstaklingum líður ekkert sérstaklega vel að taka þátt í rógburði um annað fólk, en viljinn til að vera „partur of hópnum” verður því miður yfirsterkari en eigið siðferði. Það að spila ekki með eða jafnvel efast um söguna, getur valdið því að um þig verður rætt um leið og þú yfirgefur hópinn. Þá er nú bara einfaldara að vera með.

Til eru þeir einstaklingar sem nærast á því að slúðra um aðra og leggja sig fram við að vera alltaf með eitthvað „krassandi.“  Svoleiðis einstaklingur hefur þörf á því að upphefja sig á kostnað annara því að eigin geta og kostir eru ekki til staðar.

Auglýsing

Því mikilvægt er að muna að sú þörf að slúðra um aðra er ekkert annað en merki um skort á sjálfstrausti hjá þér.

Mörgum finnst það fyndið og jafnvel skemmtilegt að taka þátt í slúðri, og oft á tíðum er verið að tala um vin eða kunningja. En hvers konar vinur eða ættingi er það sem tekur þátt í neikvæðu tali um þig? Þarftu virkilega á þeim einstaklingi að halda í lífinu? Og er ekki líklegt að þú sért umræðuefnið þegar þú mætir ekki í skemmtun vinahópsins.

Það er rétt að hafa það í huga að tilhæfulaust slúður hefur valdið vinaslitum, fjölskyldur hafa splundrast og hjónabönd farið í vaskinn. Slúður leysir nefnilega aldrei neinn vanda en getur búið til efa og sárindi. Ef að þú átt í samskiptaerfiðleikum við vinnufélaga, þá lagast þau samskipti ekki með því að tala illa um þann einstakling. Sambandið við tengdamóður þína lagast hreint ekkert við það að slúðra um hana það er alveg á hreinu. Eina sem gerist er að þú gerir lítið úr sjálfum þér og sýnir á þér óskemmtilega hlið til að breiða yfir eigin veikleika og getuleysi .

Einstaklingur með sjálfstraust talar vel um aðra og ef sá einstaklingur heyrir eitthvað slæmt, þá fer hann ekki með það lengra. Einstaklingur með sjálfstraust hrósar öðrum og tekur eftir því þegar góðir hlutir eru gerðir. Einstaklingur með sjálfstraust er sterkur og þú laðast að þannig aðila. Þeir eru efni í leiðtoga og svoleiðis vini áttu að hafa í kringum þig.

Líttu nú í spegil og hugsaðu hvenær þú slúðraðir síðast? Hvenær talaðir þú illa um vin, kunningja, eða jafnvel einhvern sem þú þekkir ekki neitt? Hefðir þú sagt þessa sögu ef einstaklingurinn hefði heyrt í þér?

Næst þegar þú finnur þig á þeim slóðum að ætla að slúðra um aðra, eða ert í umhverfi þar sem það á sér stað, gerðu þá eftirfarandi:

  • Veltu því fyrir þér hvort að þú sért með raunverulega vissu fyrir því að umtalið sé rétt.
  • Ef einhver er að tala illa um annan aðila, spurðu hvaðan viðkomandi hefur þessar heimildir
  • Næst þegar þú finnur hjá þér þörf til að tala um vinkonu þína, veldu þá að tala um það jákvæða, því það sýnir það sjálfstraustið sem í þér býr.

 

“Great minds discuss ideas; Average minds discuss events; Small minds discuss people”

 

 

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!