Fyrirsætan Rick Genest, sem gekk undir nafninu Zombie Boy lést miðvikudaginn 1. ágúst síðastliðinn. Er talið að hann hafi annaðhvort stokkið eða fallið af fjórðu hæð í íbúðarblokk sinni í Montreal, Kanada.
Fjölskylda Ricks, sem er í algeru áfalli, segir að það geti ekki verið að hann hafi framið sjálfsvíg og telur að um slys hljóti að vera að ræða.
Umboðsmaður Ricks, Karim Leduc, sagði í viðtali við TMZ að Rick hefði oft farið út að reykja á svölunum. Hann hafi sennilega hallað sér of langt aftur á handriðinu og runnið og dottið.
Ættingjarnir benda líka á að ekki sé um sjálfsvígsbréf að ræða og segja að hann hafi „elskað að skrifa“ og meina þá að ef ætlunin hefði verið að taka sitt eigið líf hefði hann sennilega skrifað þeim bréf.
Eftir að hann féll af svölunum um klukkan 17 á miðvikudag var farið með hann á spítala þar sem reynt var að hnoða í hann lífi. Því miður tókst það ekki. Rick var 15 ára þegar hann sigraðist á heilakrabba.
Zombie Boy var í myndbandi Lady Gaga – Born This Way – og í kjölfarið fékk hann mörg fyrirsætuverkefni, t.d. fyrir GQ og Vanity Fair.