Læknir í Kaliforníuríki, Bandaríkjunum, skar upp verðandi móður án deyfingar í bráðakeisara. Konan öskraði og grét vegna sársaukans en á hana var ekki hlustað.
Delphina Mota (25) og unnustinn Paul Iheanachor eignuðust stúlku fyrir sjö mánuðum síðan. Delphina segist hafa fundið fyrir öllu þar til leið yfir hana vegna sársauka.
Í síðasta mánuði fóru þau í mál við Tri-City Medical Center í Oceanside, Kaliforníu fyrir mistök í starfi og vegna tilfinningalegs áfalls við aðgerðina.
Samkvæmt málsskjölum fóru Delphina og Paul á spítalann morguninn 15. nóvember. Var hún gengin meira en 41 viku og vonuðust að sjálfsögðu eftir fæðingu.
Þegar læknar og hjúkrunarstarfsmenn fundu engan hjartslátt kallaði læknirinn Sandra Lopez, eftir bráðakeisaraskurði. Var Delphina tekin á skurðstofuna í hvelli og var svæfingarlæknir kallaður til. Hann svaraði þó ekki kallinu. Hafði Delphina fengið mænudeyfingu fyrr um nóttina en hafði það ekki áhrif á skurðsvæðið sem er á maganum, fyrir ofan lífbeinið.
Þar sem svæfingarlæknirinn svaraði ekki tók Sandra Lopex þá ákvörðun að „binda hana niður.“ Voru hendur og fætur bundnar við borðið áður en læknirinn athafnaði sig. Þegar hún var við það að skera kom loks svæfingarlæknirinn inn í herbergið: „Mota var grátandi og öskrandi af öllum mætti og kvartaði yfir því að hún fyndi fyrir öllu sem væri að gerast. Einnig kallaði hún á hjálp og bað um að hætt yrði við að skera hana,“ segir í málsskjölum.
Unnustinn stóð nærri hurðinni á skurðstofunni en var neitað um aðgang.
Parið sagði við Los Angeles Times að dóttir þeirra, Cali, sé nú sjö mánaða og sé algerlega „fullkomin.“
Þau hafa nú höfðað málssókn á hendur spítalanum og vilja fá sem samsvarar 616 milljónum í skaðabætur.