Sara Mist Sverrisdóttir lenti í ömurlegu atviki á heilsugæslustöðinni í Laugardal í gær, föstudaginn 27. júlí og í Facebookpósti varar hún mæður með ung börn við þessum ofbeldismanni sem gengur laus.
Mikael Daði, sonur Söru
Sara segir: „Var á biðstofunni með son minn á heilsugæslunni þar sem þessi maður er að bíða eftir konunni sinni sem er á undan okkur í röðinni, Mikki litli að hlaupa um og vera með smá læti eins og 3ára barni vera ber. Þá tekur hann upp á því að króa son minn af og stoppa hann frá að komast til mín, reyndi að halda honum og dró hann áfram á hendinni.
Þegar ég ætla taka son minn af honum þá neitar hann að sleppa og rígheldur af alefli í barnið og ég varð að fjarlæga hann af syni mínum með valdi.
Færi son minn frá en þá eltir hann okkur og öskrar framan í barnið af fullum hálsi: „Þegiðu! Snarhaltu kjafti og vertu til friðs!“ Ég öskraði á hann að hann kæmi ekki svona fram við barnið mitt og ætti að snarhalda kjafti og setjast í sætið sitt.
Þá ákvað hann að leggja hendur á mig, ég sleit mig lausa og ýtti honum burt þá reyndi hann að ráðast á mig með stól sem ég tók af honum og bað afgreiðsluna að hringja á lögregluna.
Þá rífur hann kjaft við hana að sonur minn hafi verið með læti. Konan hans kemur út, ég tjái henni hvað hann hafi gert og hún hlær og svo flýja þau saman áður en lögreglan mætti á svæðið.“
Sara þarf nú að fá áverkavottorð og svo þarf hún að bíða eftir því að lögreglan hafi svo samband við hana vegna málsins. Aðspurð um hvernig Mikki litli hafi það eftir þessa tilefnislausu árás mannsins, segir hún: „Hann var í sjokki fyrst og spurði mikið út í þetta, en hann er algjör nagli og ég hef haft nóg að gera fyrir hann í dag svo hann hefur ekkert pælt meira í honum ennþá.“