Aðaláhyggjur fólks við að taka með sér nesti í vinnuna snúast sennilega um að einhver borði nestið þeirra eða að maturinn verði ekki nægilega góður þegar á að snæða hann. Á þessum vinnustað verkfræðinga var þó áhyggjuefnið annað…allt annað. Þýska lögreglan hefur nú handtekið 56 ára gamlan mann, „Klaus O.“ eftir að 26 ára vinnufélagi fann hvítt duft á samlokunni sinni og tilkynnti það til yfirmanns.
Fyrirtækið brást við með því að setja eftirlitsmyndavélar í eldhús vinnustaðarins og á þeim mátti svo sjá hinn grunaða opna nestisbox vinnufélaga síns og strá dufti yfir matinn hans, sagði lögreglan.
Heimili Klaus var rannsakað og þar fann lögreglan efni á borð við kvikasilfur og blý. Samlokan var einnig rannsökuð og fannst á henni blý asetat sem getur valdið líffæraskemmdum.
Enn óhugnanlegra er þó sú staðreynd að 21 fyrrum vinnufélagi Klaus hefur andast á óútskýranlegan hátt síðan árið 2000. Nú hefur lögreglan því í nægu að snúast þar sem reynt verður að komast að því hvort Klaus hafi í raun komið þeim fyrir kattarnef.