Sérvitringurinn og uppfinningamaðurinn danski, Peter Madsen, elskaði að vera í sviðsljósinu. Þar endaði hann einnig – en á öðrum forsendum en hann ætlaði sér.
Nautilus UC3 kafbáturinn hans var verkefni Peters (47) sem hann vann að í þrjú ár og sjálfboðaliðar lögðu heilmikið af mörkum til að draumurinn yrði að veruleika. Hann var settur á flot árið 2007 og var þá stærsti kafbátur í heimi sem smíðaður var af einkaaðila, um 60 fet á lengd.
Peter hafði alltaf átt sér stóra drauma og hóf rekstur aðeins 15 ára gamall. Vildi hann smíða kafbáta og eldflaugar þannig hann gæti ferðast á staði þar sem fáir hefðu komist á.
Hann lagði stund á verkfræði og þegar hann útskrifaðist vildi hann starfa sjálfstætt. Stærsta verkefni hans var kafbáturinn Nautilus sem hann eignaðist eftir mikilar deilur við fyrrum samstarfsaðila. Í kafbátnum voru haldin teiti, ballettsýningar og Peter meira að segja skaut tilraunaeldflaugum af honum. Hann var vel þekktur í Danmörku og fékk oft fé í gegnum hópfjármögnun til að stunda sína vinnu.
Margir töldu Peter mikinn snilling. Hann var vingjarnlegur og hafði sjarma, en fyrrum kærustur sögðu hann vera hrifinn af sadó-masó kynlífi, kæfikynlífi og var hann fjölþreifinn. Hann horfði á ofbeldisfullt klám og átti til að missa stjórn á skapi sínu. Samt sem áður heillaði hann fólk.
Kim Wall og ástríðan fyrir blaðamennskunni
Kim Wall var þrítug blaðakona í lausamennsku og var fædd í Svíþjóð. Framtíðarfyriráætlanir hennar snerust um að flytja til Kína með kærastanum, Ole Stobbe. Kim hafði reynt að ná tali af Peter í nokkra mánuði þar til hann loksins samþykkti að veita henni viðtal þann 10. ágúst 2017. Hún varð svo spennt fyrir viðtalinu við Peter að hún fór úr eigin teiti heima hjá sér til að heimsækja hann í kafbátinn við höfnina í Kaupmannahöfn. Það var ekkert óvenjulegt að hún léti vinnuna í forgang. Hún var svo heilluð af sögum fólks að hún lét ekkert stöðva sig, ferðaðist m.a. oft erlendis til að ná tali af fólki.
Kim skrifaði bæði fyrir New York Times og The Guardian um málefni á borð við jarðskjálftann í Haítí og kjarnorkuvopnatilraunir.
Þennan dag yfirgaf Kim teitið heima hjá sér sem var kveðjuteiti fyrir þau Ole. Hún sendi Ole SMS úr kafbátnum: „Ég er enn á lífi,” sagði hún í einum skilaboðum. „Er að fara niður núna. Ég elska þig!” Mínútu síðar bætti hún við: „Hann kom með kaffi og kökur þó.” Kim tók mynd þar sem hún stóð ofan á kafbátnum og þau sigldu í burtu.
Þegar Kim skilaði sér ekki heim og svaraði engum skilaboðum fór Ole til lögreglunnar og sagði hana týnda. Lögreglan reyndi að ná sambandi við kafbátinn en höfðu ekki búnað til að rekja ferðir hans.
Peter var þó við að hafa samband við lögregluna sjálfur. Daginn eftir að hún hvarf kallaði hann á hjálp. Kafbáturinn sem var 33 tonn hafði sokkið og Peter var bjargað, ómeiddum úr honum rétt suður af Kaupmannahöfn. Hann sagðist hafa átt í tæknilegum erfiðleikum, en það leit út fyrir að hann hefði sjálfur valdið skemmdum. Hvað var hann að reyna að fela? Þegar hann var spurður um Kim sagðist hann hafa skilað henni á eyju eftir nokkra klukkutíma siglingu. Rannsakendur fundu þó blóð í kafbátnum og á fötum Peters. Nokkrum dögum seinna fannst höfuðlaust lík Kim. Líkami hennar hafði verið sundurlimaður. Kafarar fundu svo síðar útlimi hennar og höfuð sem hafði verið sökkt í sjóinn.
Sögur Peters
Peter breytti svo sögu sinni skyndilega. Hann sagði Kim hafa látist þegar hún fékk þunga hurð í höfuðið sem skelltist óvart. Hann sagðist hafa fríkað út og hafi reynt að verja fjölskyldu hennar frá því að frétta smáatriði um dauða hennar. þegar Peter var sagt að engir slíkir áverkar hefðu fundist á höfði Kim, breytti hann sögu sinni enn á nú.
Sagði hann um galla hefði verið að ræða í kafbátnum og eitraðar gufur hefðu flætt um hann. Hún hafi verið inni en lofttæmi hefði myndast og hann hafi ekki getað opnað hurðina. Þannig hefði hún dáið. Dánardómstjórinn efaðist um þessa sögu þar sem engar slíkar gufur hefðu fundist í lungum hennar.
Rannsakendur tóku eftir ótrúlegum kulda og tilfinningaleysi Peters. Jafnvel ef Kim hefði látist í slysi, hvað olli því að hann ákvað að sundurlima líkið og henda því í sjóinn með þvílíkri vanvirðingu?
Rannsakendur komust að því að Peter hafði „gúglað” „höfuðlaus kona í örvæntingu” aðeins nokkrum klukkutímum áður en Kim mætti í viðtalið og horfði hann einnig á myndband þar sem kona var skorin á háls. Þar voru einnig skilaboð frá Peter til annara kvenna þar sem hann var að reyna að bjóða þeim um borð í kafbátinn en þær neituðu. Kim hinsvegar samþykkti boðið með þessum hörmulegu afleiðingum.
Málið vakti töluverða athygli um víða veröld og var oft líkt við norrænu krimmasögurnar sem vinsælar eru. Fyrir fjölskyldu Kim var líkingin særandi. Kim var ekki skáldsagnapersóna og dauði hennar var skelfilegur og óhugnanlegur.
Réttarhöldin og dómur
Réttarhöldin hófust í fyrra (2017) og var niðurstaðan í höndum dómara og tveggja kviðdómara. Peter játaði ekki morðið en játaði að hafa sundurlimað líkið. Hann hélt sig við söguna að hann hefði misst tak á hurð þegar hann var að sýna henni kafbátinn. Hún hafi hæft Kim í höfuðið og þannig hafði hún dáið. Hann sagðist hafa fyllst miklum ótta og gefið henni útför á sjónum: „Í því áfalli sem ég var í, var þetta rétt að gera. Hvað gerir þú þegar þú sérð fram á stóran vanda? Þú reynir að minnka hann,” sagði hann við réttarhöldin. Einnig sagðist hann þykja þetta „mjög, mjög leitt hvað gerðist” en enginn lagði trú á sögu hans.
Vörn hans snerist um að þar sem lík Kim hafi verið lengi í vatninu væri því engin leið að segja til um dánarorsökina. Peter neitaði ekki að hafa sundurlimað líkið og hent því í sjóinn og logið að lögreglunni, en það var í raun engin sönnun fyrir að hann hefði framið morð.
Saksóknarinn sagði hinsvegar að Peter hafi áætlað morðið á Kim, sem var drifið áfram af hugmyndum hans um ofbeldisfullt kynlíf. Áður en Kim fór um borð í kafbátinn hafði hann keypt hníf, yddað skrúfjárn og bönd. Hann keypti meira að segja pípurnar sem notaðar voru til að sökkva líkamshlutunum. Sagði hann að Peter hefði nauðgað henni hrottalega, myrt hana, sundurlimað líkið og komið því fyrir borð til að fela slóð sína.
Það var erfitt fyrir alla viðstadda réttarhöldin að heyra hrottalegar lýsingarnar á morðinu. Kim var með 24 stungusár á kynfærunum og eitt í brjóstið sem bentu til að morðið hafi verið framið af kynferðislegum ástæðum: „Ég gataði suma líkamshlutana því ég vildi ekki að þeir fylltust af gasi við rotnunina. Það var ekkert erótískt við þessi stungusár,” sagði Peter til skýringa.
Erfitt var fyrir sérfræðinga að ákvarða dánarorsök. Eitthvað hafði verið klippt á loftveginn en hvort hún hafði verið kyrkt, skotin á háls eða hún drukknað var erfitt að fullyrða. Sum sáranna höfðu verið veitt fyrir andlátið sem var skelfilega erfitt að heyra fyrir ástvini Kim.
Rannsakandi bar vitni um að Peter hefði aflimað Kim með því sem var í kringum hann í kafbátnum. Hann lýsti því sem „geðsýkislegu ástandi” og hann hafi aflimað hana í baðherbergi kafbátsins: „Þetta er svo hrottalegt að ég vil ekki fara út í smáatriði. Ég mun bara segja að þetta hafi verið hryllilegt.”
Sálfræðingar kölluðu hann „sjúklegan lygara” (e. pathological liar) og hann skorti samkennd og eftirsjá. Saksóknarinn kallaði málið „viðbjóðslegt og svívirðilegt,” í lokaræðu sinni: „Peter Madsen er ekki venjulegur maður. Hann er hættulegur samfélaginu.”
Í apríl á þessu ári var Peter fundinn sekur um morð, kynferðislega árás og afskræmingu líks. Dómarinn sagði niðurstöðuna samhljóða: „Það eru greinileg sönnunargögn þess efnis að hinn ákærði hefur sýnt áhuga á að drepa og aflima fólk,” sagði dómarinn og vísaði í leitarsögu Peters á netinu. Hafnaði hann því að dauði Kim hafi verið slys: „Skýringin er ótrúverðug og óskýr og ekki í tengslum við ákvörðunina að aflima líkið.”
Peter fékk lífstíðardóm án möguleika á reyslulausn. Hann hefur haft hljótt um sig og hefur áfrýjað refsingunni en ekki dómnum. Á meðan hann helst í sviðsljósinu, eins og hann óskaði sér, hafa ættingjar og ástvinir Kim haldið minningu hennar á lofti, fyrir hæfileika hennar. minningarsjóður hefur verið stofnaður til að styða aðra blaðamenn að elta sína drauma á sama hátt og Kim gerði. Hún var alltaf að leita að sögu til að segja og grunaði aldrei að einn daginn yrði dauði hennar í fyrirsögnum um allan heim.