Hátt í 30 manns hafa nú látist af völdum kolsýrlingiseitrunar eftir að hafa gleymt að slökkva á bílnum sínum. Hefur þetta gerst þar sem fólk hefur farið með bílinn inn í bílskúr og gleymt að slökkva á honum. Hátt í 20 fleiri hafa lent í slysum sem valda lömun, samkvæmt The New York Times. Öll fórnarlömb höfðu gleymt bíl sínum í gangi í bílskúrnum.
Af hverju gerist þetta?
Í nýjustu bílunum er oftast lyklalaust aðgengi. Það gerir ökumanni kleift að kveikja og slökkva á bílnum með hnappi. Bíllykillinn sjálfur er í raun ekki lykill en hægt er að geyma hann í vasa eða veski. Ökumönnum er gert auðvelt að kveikja á bílnum, en þar af leiðir að það kann að gleymast að slökkva á honum einnig.
Þetta á sérstaklega við um hljóðláta tvinnbíla (e. hybrid). Vélin gæti ekki verið í gangi þegar bílnum er lagt, en hún kveikir á sér þegar rafmagnið þrýtur. Þó bíllinn sé ekki tvinnbíll eru margir nýrri bílar afar hljóðlátir þannig erfitt getur verið að greina hljóð með eyranu þegar bílnum er lagt.
Hví eru nýir bílar hannaðir svona?
Svokallað lyklalaust aðgengi er orðið venjubundið í nýjum bílum í dag og eru margir bíleigendur þakklátir því, þar sem ekki þarf að leita að lyklum til að opna bílinn og ræsa hann.
Hægt er því fyrir ökumann að læsa og aflæsa bílnum bara með því að snerta hurðahúninn og þarf ekki „lykilinn“ til. Þegar inn í bílinn er komið geta ökumenn ræst bílinn með hnappinum, eða í sumum bílum – með því að snúa takka.
Hvað geta bílframleiðendur gert til að koma í veg fyrir þessi slys?
Bílframleiðendur ættu að setja viðvörunarbúnað í bílana sem heyrist í þegar ökumaður fer út úr bíl sem er í gangi. Bílatímaritið Consumer Reports hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem allir bílframleiðendur eru hvattir til að setja slíkan búnað í bílana. Sumir hafa nú þegar slíkan búnað með hljóði sem heyrist þegar gleymist að drepa á bílnum. Aðrir s.s. General Motors (GM) hafa hannað bíla sína þannig að þeir slökkva sjálfir á sér eftir einhvern tíma þegar ökumaður hefur yfirgefið ökutækið.
Eru engar reglur hvað þetta varðar?
Lagt hefur verið til að búa til regluverk varðandi þetta atriði en ekkert hefur gerst, a.m.k. ekki Bandaríkjunum, skv. New York Times og fleiri fjölmiðlum. Það getur verið erfitt að framfylgja þessu með réttum hætti, t.d. þegar ökumaður yfirgefur bílinn en vill hafa hann í gangi til dæmis fyrir barn eða gæludýr í bílnum, eða ef hann vill nota háu ljósin til að sjá hvað hann er að gera í einhverjum tilfellum.
Mælt er með að ökumenn veri vakandi yfir því að drepa algerlega á bílnum þegar hann er yfirgefinn, sérstaklega ef hann er geymdur í bílskúr. Auðvelt er að verða fyrir truflun af völdum barna eða símhringingar.
Einnig er hægt að verða sér úti um tæki sem mælir kolsýrling í andrúmslofti. Flest áðurnefnd dauðsföll má rekja til þess að fólk hafði ekki þann viðvörunarbúnað virkan.