Þriðja atvikið á einum mánuði: Söngkonan vinsæla, Taylor Swift, er sennilega að auka öryggisgæslu í kringum sig eftir þriðja atvikið tengt eltihrellum átti sér stað um helgina. Aðdáandinn Roger Alvarado braust inn í eitt af húsunum hennar í New York. Sást hann klifra upp stiga áður en hann braut glugga til að komast inn í lúxusíbúðina á föstudag.
Samkvæmt lögregluskýrslum náði hann að fara í sturtu áður en hann fékk sér lúr í rúmi Taylor. Var Roger handtekinn á staðnum og kærður fyrir glæpsamlegt athæfi, áreitni og innbrot.
Taylor var ekki heima á þessum tíma en Roger var einnig handtekinn þann 13. febrúar síðastliðinn þar sem hann reyndi að komast inn í sama hús í New York „með skóflu.“
Er húsið staðsett nálægt öðru húsi sem hún á, en hún keypti það árið 2014 af leikstjóranum Peter Jackson.
Í síðustu viku var annar eltihrellir einnig handtekinn þar sem hann reyndi að komast að villu Swift í Beverly Hills. Sá maður var með grímu og gúmmíhanska og á honum fannst hnífur, byssa og reipi. Lögreglan tók því mjög alvarlega og fékk nálgunarbann fyrir söngkonuna. Hinn grunaði, Julius Alexander Sandrock, var handtekinn og settur í varðhald.