Kona hefur verið sett í bann á veitingastað þar sem hún hafði kvartað of oft yfir matnum. Kelly Smith hafði verið fastagestur á Beefeater veitingastaðnum í Coldra, Wales, þar til hún fékk bréf frá veitingastaðnum þar sem óskað var eftir því að hún hætti að koma á staðinn.
Kelly, sem er 36 ára, kom oft þangað með átta ára son sinn sem hún sagði að elskaði hvítlausbrauðið þar. Hún sagðist sjálf hafa oft notið sérréttanna þeirra en einnig hafi hún stundum sett út á þá. Hún hældi þó þjónustunni.
Játaði Kelly að hafa gert „nokkrar athugasemdir“ við matinn undanfarna tvo mánuði. Hún sagði að kvartanirnar hefðu snúist um að kjötið hafi ekki verið nógu vel steikt, hamborgari sonarins einu sinni of „erfiður að melta“ og einu sinni þurfti hún að bíða í meira en klukkutíma eftir matnum. Hún sagðist þó halda áfram að koma á Beefeater þar sem „starfsfólkið var svo almennilegt.“
Hvað sem því líður kom snurða á þráðinn hvað samkomulagið varðar þegar Kelly fékk bréf frá framkvæmdastjórn veitingastaðarins sem í stóð að hún væri ekki lengur velkomin á staðinn. Í bréfinu sem skrifað var af eigendum staðarins sagði að þeim þætti miður að „geta ekki mætt kröfum hennar hvað varðar gæði matarins og þjónustu.“ Var svo Kelly ráðlagt að „vinsamlega halda sig frá veitingastaðnum.“
Hringdi Kelly þá í þjónustuverið og var henni sagt að þeir hefðu tekið eftir því að hún kvartaði mjög. Talsmaður Beefeater sagði að Kelly hefði kvartað í sex af sjö síðustu heimsóknum til að fá endurgreitt og því væri veitingastaðurinn ekki í stakk búinn að mæta kröfum hennar.
Móðirin sagði í viðtali við South Wales Argus að hún hefði ekki beðið um endurgreiðslu heldur annan rétt þegar hún kvartaði. Einnig sagði hún að hú væri reið því veitingastaðurinn hefði skráð niður öll þau skipti sem hún hefði kvartað. Hún sagði að það væri sinn réttur að kvarta ef hún væri ósátt: „Að skrá allt niður gerir mig alveg brjálaða. Ég skil ekki af hverju enginn talaði við mig, heldur bannaði mig á staðnum.“
Heimild: Yahoo.com