Hugtakið markþjálfun (e. coaching) hefur uppruna sinn úr íþrottaheiminum í byrjun 19.aldar þar sem það var notað í Amerískum háskólum til að bæta árangur. Með tímanum hefur markþjálfun þróast mjög mikið og í lok 1990 var markþjálfun komin inn í viðskiptaheiminn og orðin mjög vinsæl út um allan heim. Markþjálfun er ferli þar sem marksækjandinn fær aðstoð, af markþjálfa sem er búinn að þjálfa sig í að hjálpa fólki að ná markmiðum sínum og þróa sjálfa/n sig. Markþjálfun er fyrir þá sem vilja vaxa og þróa sjálfan sig, störf sín eða hegðun. Það getur stundum verið mjög ögrandi og erfitt fyrir fólk að horfast í augun við sjálfa/n sig en markþjálfun er engu að siður mjög áhrifarík og leið til að ná árangri. Allir geta farið í markþjálfun, hvar sem þeir eru staddir í lífinu.
Markmið markþjálfunar:
Að aðstoða fólk að læra sjálft í stað þess að kenna því
Að hjálpa fólki að finna sín eigin svör í stað þess að segja þeim hvað það eigi að gera
Að skapa ábyrgðarkennd og hlutdeild í lausnum með eigin svörum
Að opna fyrir fullan styrk persónunnar
Að bæta árangur
Að auka meðvitund, finna fleiri valmöguleika og móta stefnu
Það eru til fullt af lífsstílsráðum og upplýsingum um mikilvægi þess að borða hollt, hreyfa sig reglulega, hætta að reykja, minnka streitu o.sv.fr. en Það er oft mjög erfitt að framkvæma stærri breytingar sjálfur og því getur verið gott að fá aðstoð. Markþjálfun getur hentað sérstaklega vel þegar kemur að lífsstílsbreytingum og að bæta heilsuna til að ná varanlegum árangri og jafnvægi í lífinu.
Camilla Aspfors, hjúkrunarfræðingur og markþjálfi