Nú mun forkeppni Söngvakeppni sjónvarpsstöðvanna fara fram innan nokkurra vikna í sjónvarpi allra landsmanna. Við ákváðum að heyra í nokkrum sem hafa lag í undankeppninni og ríður Þórunn Antonía á vaðið en hún á lagið Ég mun skína sem þú getur hlustað á í meðfylgjandi myndbandi.
Hvernig kom til að þú ákvaðst að senda inn lag í keppnina?
Ég fann Agga (Agnar Friðbertsson) inn á Hljóðnördar án landamæra sem er svona hljóðnördasíða á Facebook, ég geri sjálf takta og pródúsera heimademó og gerði t.d. lagið I Want You fyrir verðlaunamynd Nönnu Kristínar heima sjálf bara í tölvunni! Mér finnst hinsvegar svo gaman að vinna með fólki þannig að ég óskaði eftir einhverjum sem væri klár pródúser því mig langaði í samstarf við pródúser.
Aggi sendi mér nokkur lög og ég kolféll fyrir hnns tónlistarheimi og úr varð þetta lag Shine og okkur fannst tilvalið að senda það í söngvakeppnina.
Um hvað fjallar lagið?
Lagið er um að líta á björtu hliðarnar og skína þrátt fyrir erfiðleika. Ég hef glímt við allskonar veikindi í kjölfarið af fæðingu dóttir minnar fyrir þremur árum. Ég fékk lífshættulegan meðgöngusjúkdóm og stundum hefur þetta verið erfitt og langt ferli að fyrri orku og heilsu, en þá er gott að semja um það og muna að það er alltaf miklu fleira til að vera þakklátur fyrir í lífinu og að það er alltaf hægt að sjá björtu hliðarnar.
Sem dæmi má nefna að stjörnurnar og tunglið skína bjartast þegar nóttinn er sem dimmust.
Hvernig líst þér á að taka þátt í Eurovision í fyrsta skipti?
Þetta er svo sannarlega til að birta upp janúar á þessu kalda landi, gaman að hafa eitthvað svona skemmtilegt að takast á við. Ég fór inn í þetta ferli með gleði og auðmýkt í huga og ég hlakka til taka þátt, það er fagfólk í hverju starfi þegar kemur að undirbúningi og allir í keppninni eiga svo sannarlega skilið sviðsljósið sem Söngvakeppnin varpar á þá. Þetta er bara svo skemmtilegt og þetta verður spennandi keppni.
Hvað myndi það þýða fyrir þig að fara áfram fyrir Íslands hönd?
Það væri svo sannarlega heiður og ótrúlega spennandi og það yrði gaman að taka þátt í viðburði af þessari stærðargráðu. Þetta er bara mjög gaman og óvænt allt saman.