Verkir í stoðkerfi líkamans eru flókin og margþætt vandamál, verkir í mjóbaki eru gott dæmi um það. Flestir finna einhvern tímann á lífsleiðinni fyrir óþægindum í baki en alvarleiki þeirra getur verið mjög mismunandi. Sumir jafna sig á stuttum tíma og án sérstakra úrræða meðan aðrir þurfa meiri tíma og aðstoð sérfræðinga. Hluti þeirra sem þjást af mjóbaksverkjum fá lítinn eða engan bata af hefðbundnum aðferðum sem notaðar eru til að meðhöndla bakverki (s.s. bólgueyðandi lyf, æfingar, liðlosun, nudd, rafmagnsmeðferð og teygjur) og fá greininguna mjóbaksverkir af óljósum uppruna.
Mjóbaksverkir geta verið vegna langvarandi álags eða vegna skyndilegra átaka. Skyndilegir áverkar eru t.d. áverkar eftir slys, tognanir á liðböndum, vöðvum og smáliðum. Verkir af völdum skyndilegra átaka eru gjarnan betur einangraðari en verkir vegna langvarandi álags þar sem áhrifin eru oft útbreiddari í líkamanum. Verkir vegna langvarandi álags geta hins vegar stafað af t.d. brjósklosi, sliti í hryggjarliðum, ofþyngd, skekkju á mjaðmagrind, mislöngum fótleggjum, rangri líkamsbeitingu/líkamsstöðu, rangri stöðu á mjaðmaliðum, hnjám og fótum. Ekki má heldur gleyma því að við erum bæði líkami og sál og því getur andlegt álag komið fram í líkamlegum verkjum. Eins geta utanaðkomandi aðstæður haft áhrif á þróun bakverkja, svo sem óhentugt vinnuumhverfi, rúm og skófatnaður.
Hver framtíðin verður í meðferð mjóbakverkja fer eftir því hvort mjóbakverkir eru skilgreindir sem heilbrigðisvandamál (health problem) eða læknisfræðilegt vandamál (medical problem). Ef litið er á bakverki sem heilbrigðisvandamál þýðir það við verðum að þekkja mismunandi orsakir mjóbakverkja og stunda eigin forvarnir (self care) gegn þeim. Með því að framkvæma athafnir sem við erum alltaf að gera í daglega lífinu rétt getum við markvisst komið í veg fyrir eða dregið úr líkum á því að við fáum mjóbakverki. Eigin forvarnir gegn mjóbakverkjum eru þættir eins og rétt líkamsbeiting (t.d. að beygja sig rétt), hentugt vinnuumhverfi bæði heima og í vinnunni, halda kjörþyngd, stunda reglulega hreyfingu og leita sér ráðgjafar með sérhæfða þjálfun ef grunur leikur á að þess þurfi. Takmarkaður skilningur almennings á líffærafræðilegum orsökum sársauka getur verið takmarkandi þáttur fyrir góðum árangri af eigin forvörnum. Sérfræðiþekking er og verður áfram nauðsynleg til að fræða um mögulegar orsakir og veita ráðgjöf um eigin forvarnir og að sjálfsögðu til að beita sérhæfðri meðhöndlun ef vandamálið er orðið það umfangsmikið eða sérstakt að eigin forvarnir duga ekki til.
Staðreynd er að margir vilja frekar „láta gera við sig“ en að „gera við sig sjálfir“. Rannsóknir hafa til dæmis sýnt fram á að við langvarandi bakverki rýrna réttivöðvar í baki. Þar af leiðandi geta æfingar fyrir réttivöðva í baki stuðlað að minni verkjum og dregið úr líkum á endurteknum verkjum með því að auka styrk þeirra og úthald. Þegar einstaklingur þarf sjálfur að fylgja æfingaáætlun krefst það meiri áhugahvatar (motivation) en óvirk meðferð („láta gera við sig“) og því getur léleg ástundun æfinga verið stór hluti af því að illa gengur að draga úr langvarandi mjóbaksverkjum. Það má því segja að einn mikilvægasti þáttur í árangri meðferðar á langvarandi mjóbaksverkjum sé hugarfar einstaklingsins. Vill hann láta sér „líða betur“ með óvirkri meðferð t.d. nuddi, lyfjum eða nálastungum (sem er oft nauðsynlegt líka) eða vill hann í raun og veru „verða betri“ með því að gera líkamlegar breytingar með æfingum.
Það er sennilega enginn sem getur skýrt orsakir allra mjóbaksverkja eða „læknað“ þá. Það liggur þó ljóst fyrir að það þarf að skoða marga þætti við greiningu mjóbaksverkja; líkamlega, andlega og umhverfisþætti. Við ættum því öll að leggjast á eitt um að draga úr þeirri gífurlegu vanlíðan og kostnaði sem heilbrigðisvandamálið mjóbaksverkir veldur þjóðfélaginu. Skoðum vel áhættuþættina í kringum okkur og hjá okkur sjálfum og leitum aðstoðar sérfræðinga ef þörf er á, og þá frekar fyrr en seinna.