Ef foreldrar geta skipulagt aldursbilið milli barna…hvert er þá hið heppilegasta bil? Er gott að eiga þau öll með sem stystu millibili eða er fínt að láta börnin stækka aðeins áður en bætt er við fjölskylduna?
Margar kenningar eru á lofti meðal sérfræðinga og foreldra. Sumum finnst of mikil vinna að láta þau koma með stuttu millibili meðan aðrir segja að erfiðleikarnir gangi fyrr yfir og endi á svipuðum tíma.
Með lengra millibili eru eldri börn oft (en alls ekki alltaf!) tilbúin að vera með í ferlinu og geta hjálpað til.
Hvað varðar heilsu móður og foreldra hafa bæði stutt og lengri millibil sína kosti og galla, segir Warren Cann, sálfræðingur og framkvæmdastjóri Parenting Research Centre: „Rannsóknir hafa sýnt að bíða í 18-23 mánuði á milli barna er gott, þar sem heilsuvandræði geta hrjáð bæði móður og barn bæði þegar stutt er á milli og einnig þegar lengra er á milli – fimm ár eða meira,” segir Warren.
„Við vitum ekki hvort það er líkamlega álagið sem fylgir því að ganga með og eiga barn eða hvort vandræðin eru félagsleg, svo sem álag eða fátækt,” segir hann. Afbrýðisemi og rifrildi eru oftast algengust milli barna sem tvö til fjögur ár eru á milli, en minna virðist vera um það ef bilið er meira en fimm ár eða minna en 18 mánuðir.
Warren segir að ekki sé eingöngu aldursbili um að kenna, heldur geti kyn líka ákvarðað það. Besta ráðið segir hann, ef þú getur um það valið, er að bíða þar til ykkur finnst þið tilfinningalega tilbúin að geta átt við annað barn.
Að eignast barn með stuttu millibili
Kostirnir eru margir. Þú vilt að þau alist upp saman og verði félagar. Því nær sem börnin eru í aldri – því meiri vinna er á fyrstu mánuðunum og árunum. „Auðvitað er það hægt, en því fylgir mikið álag. Þú þarft að hafa mikinn stuðning. Til dæmis má nefna að mæður tvíbura eða systkina sem fædd eru með stuttu millibili eru líklegri til að þjást af fæðingarþunglyndi.”
Verðlaunin koma þó þegar börnin eldast, vonandi verða þau félagar og hafa ofan af hvort öðru og þú þarft að eyða minni tíma í að „passa” þau.
Fjárhagslega er auðvitað sniðugt að eignast börn með stuttu millibili því þá áttu sennilega allan búnað frá fyrra barni.
Ef þið foreldrarnir eruð útivinnandi er auðveldara að skipuleggja barnapössun fyrir tvö til þrjú börn í einu, í stað þess að hafa t.d. eitt miklu eldra.
Lítið andrými
Sumir foreldrar þurfa hreinlega að taka sér dálitla pásu þar til þeir eru tilfinningalega tilbúnir að eignast annað barn. Sum pör ákveða einnig að leyfa barninu að njóta þess að vera einstaklingur í næði þar til annað barn kemur.
Lengri tími en þrjú ár þýðir að þú þarft aftur að fara að hugsa um ungabarn um leið og þú hélst að þú værir að ná tökum á foreldrahlutverkinu: „Svo í annan stað gætir þú verið ánægð að fá reglulegan svefn og pásu frá brjóstagjöf og þá ertu tilbúin á ný.”
Að bíða þar til barnið er eldra og komið í leikskóla eða grunnskóla getur verið þægilegt fyrir foreldra að eiga gæðastundir með barninu sínu án þrýstings: „Það eru margir kostir við lengra aldursbil,” segir Warren. „Eldra barnið tekur ábyrgð á barninu og hvað það þýðir að hugsa um einhvern annan. Yngri börnin fá örvun frá bæði foreldrum og eldri systkinum sem tala og leika við þau. Það er líka gott að minna er um samkeppni milli systkina um athygli frá foreldrunum.”