Fyrstu einkenni klemmdrar taugar eru dofi, náladofi, sviðatilfinning eða stingir niður í gegnum rassinn og fótleggi eða í hálsi, öxlum, handleggjum og fingrum.Í sumum tilfellum eru einkennin í þónokkurri fjarlægð frá þeim stað þar sem taugin er klemmd. Sem dæmi má nefna að klemmd taug í mjóbaki getur leitt til sársauka í kálfa eingöngu.Einkenni klemmdrar taugar fara eftir því hvaða taug á í hlut.
- Klemmd taug í hálsi getur valdið verkjum eða stirðleika í hálsi ásamt einkennum niður eftir handlegg.
- Klemmd taug í mjóbaki veldur verkjum og stirðleika þar og einkennum niður í fótlegg.
- Klemmd taug í hálsi og baki getur til dæmis stafað af hryggþófaraski (e. herniated disc), liðagigt, beinspora eða hryggþrengslum (e. spinal stenosis).
- Klemmd taug í úlnliði getur orsakast af bólgum í úlnliðsgöngum (e. carpal tunnel syndrome) en í gegnum þau liggur miðlæga úlnliðstaugin sem flytur boð frá löngutöng, vísi- og þumalfingri. Allt sem veldur bólgu eða breytingum á stöðu vefja í göngunum getur þrengt að og ert þessa taug og kemur slíkt fram sem dofi og seyðingur í fingrunum þremur sem hún ítaugar. Klemmdri úlnliðstaug getur líka fylgt veiklað grip og vöðvarýrnun í lófa.Ölnartaug í olnboganum er í svipuðum göngum og úlnliðstaugin og ef áþekkt ástand myndast þar koma samsvarandi einkenni fram í framhandleggnum og baug- og litlafingri handarinnar. Störf sem fela í sér margendurteknar hreyfingar auka líkur á þessum einkennum. Dæmi um slík störf eru vinna við innslátt á tölvulyklaborð eða við færiband.Til að greina klemmda taug er litið til klínískra einkenna, en einnig notuð segulómun eða röntgen- og sneiðmyndataka og jafnvel tauga- og vöðvaleiðnigreining.
Meðhöndlun
Klemmda taug má í mörgum tilfellum meðhöndla með hvíld og ís. Ef hún er í hendinni eða handlegg getur spelka flýtt fyrir bata. Sjúkraþjálfun og tilteknar æfingar geta hjálpað, til dæmis æfingar sem styrkja vöðva í baki er styðja við hrygginn. Bólgueyðandi verkjalyf eru gjarnan notuð. Meðhöndlun með þessum aðferðum hjálpar langflestum sem fá klemmda taug. Stundum þarf þó að grípa til skurðaðgerðar. Það er einkum gert í tilfellum sem hafa varað lengi án bata, sársauki er verulegur og vöðvarýrnun er farin að koma fram. Oftast á þetta við um klemmdar taugar í baki, einkum aðra lendartaug (L2) og fyrstu spjaldhryggstaug (S1) sem stafa af brjósklosi. Einnig er nokkuð algengt að grípa þurfi til skurðaðgerðar til að skrapa burt vefi sem þrýsta á taugar í úlnlið eða olnboga.