Vilmundur Sigurðsson skrifar: Maður hefur lesið sögur af fólki þar sem að maki, sem í sögunum er oftast kona, hefur blandað rottueitri í litlum skömtum í matinn hjá manni sínum, eða börnum.
Ástæðan virðist vera af misjöfnum toga, en ég man eftir sögu þar sem að konan þurfti athygli og hennar leið var að halda börnum sínum veikum með þessu móti til að geta farið með þau til læknis og fengið þannig athygli og umönnun þar.
Læknar fundu ekkert að börnunum, einkennin voru villandi og mjög erfitt að finna ástæðuna.
Svona gekk þetta lengi, þar til þetta komst upp fyrir tilviljun.
Konan var að sjálfsögðu dæmd til fangelsisvistar.
Eftirlitsaðilar og dómsvald sáu til þess.
Ég komst að því í sumar að eitri hafði verið byrlað í „kökuna“ mína við baksturinn, mér til skelfingar en samt líka léttis. Því að þar með hafði ég komist að ástæðunni fyrir því, hversvegna ég hafði verið veikur í 11 ár.
Ég var auðvitað alls ekki sáttur með það að mér hafði verið seld þessi „heilsukaka“ með eitri í.
Ég talaði við söluaðilann og hann vísaði í það að framleiðandi segði að allt væri í lagi og vildi ekkert fyrir mig meira gera.
Ég talaði við eftirlitsstofnanir og þær vísuðu hver á aðra og að lokum á Evrópusambandið.
Ég talaði við Landlækni og fékk puttann.
Ég talaði við fjölmiðla og fékk puttann frá þeim stóru.
Þekktur útvarpsmaður benti mér á að það væri erfitt að taka á þessu kökumáli vegna þess að þá gætu tapast störf hjá söluaðilum.
Þetta snerist semsagt um peninga, ekki heilsu fólks í augum fjölmiðla, enda auglýsa þessir kökusöluaðilar fyrir gífurlega miklar fjárhæðir hjá RUV og 365.
Sannleikurinn er sá að við þetta þá jókst innlend framleiðsla og fleiri störf sköpuðust þegar fólk sá að þessar erlendu „heilsukökur“ voru eitraðar.
Ég er því hérna á þessum vettvangi að reyna að vara ykkur við því að kaupa þessar kökur.
Þær eru eitraðar og stundum mygla þær.
Þessar kökur eru gerðar úr úrgangi frá jarðefnaeldsneyti.
Polyurethane.
Til að þær verði mjúkar þá er blandað í þær öðrum slæmum efnum sem hafa slæm áhrif á heilsu.
Og þá kemur til kastanna eldvarnareglugerð sem krefst þess að síðasta eiturefninu sé blandað í til þess að ekki kvikni í kökunni fyrr en eftir 12 sekúndur ef kveikjara er haldið undir henni.
OK. Já þetta er ekki heilsukaka sem við getum borðað, heldur kaka sem við sofum á og er kölluð „heilsudýna og „heilsukoddi.“
Þessar vörur voru fyrst þróaðar af Tempur á sjöunda og áttunda áratugnum og síðar hafa fleiri aðilar framleitt svona afurðir.
Almenna heitið er Memory Foam.
Þessum efnum sem á undan eru talin er semsagt blandað fljótandi saman í stórt form og það bakað við mikinn hita í ofni.
Við það myndast loftbólur og úr verður þessi fína svampkaka sem er mýkri þar sem hún hitast upp. Myndar þrýstijöfnun, sem væri frábært ef hún væri ekki eitruð!
Já frábært, við köllum þetta þá bara heilsuköku.
Svo er þetta skorið til í dýnur og kodda og selt sem heilsuvörur.
En nú hef ég komist að því í gegnum hundruði tilfella, að þetta eru heilsuspillandi dýnur og koddar.
Það eru svokölluð rokgjörn efni VOC sem gufa uppúr dýnum og koddum og líkaminn tekur þetta inn í náinni snertingu í átta klukkutíma á hverri nóttu í gegnum mestalla húðina og öndunarfæri.
Það er að valda fjölda fólks heilsutjóni.
Ég stofnaði hóp á Facebook sem heitir „Er rúmið mitt að drepa mig“ til að meta umfang og til að við sem höfum lent í svona eitrunum höfum vettvang til að skiptast á skoðunum og hjálpa hvert öðru.
Það kom mér algjörlega í opna skjöldu hvað margir eru að glíma við heilsuvandamál tengd MemoryFoam.
Alvarleg tilfelli sem ég hef kynnst í gegnum þennan vettvang eru líklega nokkur hundruð, og fjöldi fólks í hópnum er að nálgast 5000 manns.
Sem getur þýtt að tíu til tuttugu þúsund manns hafi fengið einhver einkenni.
Notkun eiturefna eins og formalíns (Formaldehyde) hefur aukist mikið síðustu áratugi.
Þeim er blandað í ýmsar vörur í ýmsum tilgangi.
Þeim er blandað í húsgögn og dýnur og kodda til að eldtefja.
Afleiðingar á heilsu fólks geta verið stór alvarlegar.
Formaldehyde er þekktur krabbameinsvaldur.
Eftirlitsaðilar sem eru Neytendastofa, Neytendasamtökin, Umhverfisstofnun, Landlæknir og Lyfjastofnun eru algjörlega sofandi og ég hef fengið virkilega slök viðbrögð þar við mínum ábendingum.
Okkur er kennt að keyra ekki framhjá slysi á þjóðveginum, heldur fara út og hjálpa.
Þessar stofnanir eru að keyra framhjá slysinu og kenna því um að Evrópulöggjöfin sé ekki leiðbeinandi í því hvað eigi að gera.
Niðurstaðan er sú að það má ekki selja heilsuköku með rottueitri, því þá lendir söluaðilinn og framleiðandinn í fangelsi.
En það má selja „heilsurúm“ með eitri á Íslandi.