KVENNABLAÐIÐ

Hvernig er best að eiga við barnaexem?

Tegundir exems eru fjölmargar. Hjá börnum nefnist algengasta exemið barnaexem, en það er stundum ranglega nefnt ofnæmisexem. Á ensku er barnaexem nefnt „atopic dermatitis“ en á Norðurlöndum „börneeksem“ eða „böjveckseksem“.

Aðaleinkenni barnaexems eru þurr, hrjúf húð og kláði. Útlit útbrota er mismunandi. Oft sjást fjölmargar örsmáar rauðar bólur í upphafi en vegna mikils kláða rífa sjúklingarnir þessar litlu bólur fljótlega burt þannig að einungis sjást merki eftir klór á húðinni.
Eins vessar úr útbrotunum þegar verst lætur. Í sumum tilvikum byrja útbrotin sem skyndileg uppþot sem nefnd eru þinur (urticaria). Þegar exemið hefur verið lengi til staðar verður húðin þykk, leðurkennd og dálítið hreistruð.
Kláðinn sem fylgir exemi getur verið mjög mikill. Klórað er stundum af slíku offorsi að það heldur vöku fyrir barninu og foreldrum þess. Stundum myndast sprungur í húðina og veldur það miklum sársauka. Sprungurnar koma oft á fingur, tær eða við eyrnasnepla rétt eins og rifið hafi verið í eyrun þótt slíkt sé að sjálfsögðu ekki reyndin!

Auglýsing

Oft er húðin kringum munn og augu föl. Þroti og bjúgur undir augum veldur því að húðin þar myndar auka fellingu eða hrukku. Felling undir augunum og fölvi kringum munninn gefur börnunum oft fullorðinslegt útlit sem stundum einkennir börn með barnaexem.
Exemið kemur oftast í húðfellingar, einnig sést það oft í kringum augu og munn. Þegar verst lætur getur öll húðin verið undirlögð.

Smábörn (0-2 ára): Hársvörður, andlit, háls, olnbogar, hné.
Börn og unglingar (2-18 ára): Eyrnasneplar, munnvik, olnbogabætur, hnésbætur, úlnliðir, rass, fellingar fyrir neðan rass, aftan á lærum, innan á lærum.

Gangur sjúkdómsins
Exemið byrjar oft við nokkurra mánaða aldur en stundum ekki fyrr en við 7-8 ára aldur. Oft hverfur exemið þegar börnin stálpast og eru flest orðin góð fyrir 15 ára aldur. Í sumum tilfellum hverfur exemið mun síðar, oft ekki fyrr en við 25 ára aldur og er þá oftar um stúlkur að ræða.

Þættir sem hafa áhrif á exem.
1. Þurr húð og kláði

Húð barna með barnaexem óvenju þurr og viðkvæm en þurr húð veldur yfirleitt kláða.

Ýmislegt ertir eða þurrkar húð exembarna og veldur kláða svo sem; lútarkenndar sápur (sýrustig>7), klór í sundlaugum, grófur ullarfatnaður, sterk þvottaefni og mýkingarefni sem notuð eru í þvott. Böðun í heitu vatni þurrkar húðina, betra er að hafa vatnið volgt. Að vetri til eru einkennin oftast verri en að sumarlagi, því húðin þornar í kulda. Í sól og söltum böðum grær húðin oft vel. Sviti eykur kláðatilfinningu og því er ráð að hafa ekki of heitt í svefnherbergi barnsins og dúða það ekki of mikið undir sængina. Erfitt getur reynst að hemja kláða en prófa má að slá létt með fingurgómunum í stað þess að nudda húðina með offorsi eða klóra sér. Gott er að halda nöglum stuttum og hreinum.

2. Sýkingar og álag.

Í kjölfar sýkinga versnar exemið oftast. Gildir þá einu hvort um er að ræða húðsýkingu, öndunarfærasýkingu eða þvagfærasýkingu. Af þessum sökum þarf að meðhöndla sýkingu eins fljótt og kostur er til að koma í veg fyrir að exemið versni. Sýkingar í húð birtast oft sem gulleitar, þurrar eða vessandi skorpur ofan á exeminu eða sem mikill roði í húðinni. Stundum fylgir hiti. Andlegt álag hefur slæm áhrif á exemið.

3. Erfðir

Ef einn eða fleiri í fjölskyldumeðlimir eru með eða hafa haft barnaexem, astma, ofnæmisaugnkvef eða ofnæmisnefkvef eru auknar líkur hjá öðrum í fjölskyldunni. Þó astmi, ofnæmisaugnkvef og ofnæmisnefkvef sé algengur hjá börnum með barnaexem fær mikill meirihluti þeirra ekki þessa sjúkdóma.

Auglýsing

4. Ofnæmi

Eins og áður segir er barnaexem oft ranglega vefnt ofnæmisexem. Þessi misskilningur stafar af því að sjúklingar með barnaexem fá oftar ofnæmi en aðrir. Dæmi um það eru ofnæmi í slímhúðum augna, nefs og öndunarfæra. Slík ofnæmi eru stundum slæm þegar húðeinkenni eru í lágmarki!

Dæmi um ofnæmi í öndunarfærum er frjókornaofnæmi, grasofnæmi og ofnæmi fyrir dýrum. Einkennin eru roði, þroti og kláði í slímhúð, nefteppa, kökkur í hálsi og í slæmum tilfellum öndunarerfiðleikar. Ofnæmi fyrir matartegundum er all algengt hjá sjúklingum með barnaexem. Dæmi um slíkt er ofnæmi fyrir fiski, skeldýrum, appelsínum og öðrum sítrusávöxtum, hnetum, eggjum, tómötum og mjólkurafurðum. Einkenni matarofnæmis koma oft fram innan 4-6 klukkustunda en geta komið fram síðar. Þau eru aðallega kláði og uppþot í húð, stundum verst í kringum munn. Önnur einkenni matarofnæmis geta verið kviðverkir og lausar hægðir eða niðurgangur. Þó barnaexem hverfi oftast með aldrinum fá sumir sjúklinganna exem síðar á ævinni og er þá oft um ofnæmisexem að ræða, t.d. fyrir nikkel eða gúmmíi. Slíkt ofnæmisexem kemur aðallega á hendur.

Ofnæmispróf
Ef engin einkenni frá slímhúðum eru greinanleg, heldur einungis frá húð er stundum takmarkað gagn af ofnæmispr&o acute;fum. Ef meðferð exemsins gengur illa og sjúkdómurinn er þrálátur eru ofnæmispróf oft framkvæmd. Þetta er þó ekki reglan. Matarofnæmi getur verið erfitt að staðfesta með prófum. Stundum er fæðuofnæmi greint þannig að sjúklingurinn er látinn borða mismunandi fæðutegundir, sem eru þannig matreiddar að viðkomandi veit ekki hvað hann er að borða. Þetta próf er oftast framkvæmt á sjúkrahúsum. Húðpróf sem gerð eru með plástrum á baki vegna snertiofnæmis (ofnæmisexems) eru annars eðlis. Þau gagnast exem-sjúklingum sem komnir eru af barnsaldri og eru t.d. grunaðir um að hafa ofnæmi fyrir málmum (nikkel) eða gúmmíi, svo dæmi séu nefnd. Húðpróf þar sem efni er borið á framhandlegg og síðan rispað í húðina með nálaroddi, eru oftast gerð vegna ofnæmis í slímhúðum (astma, ofnæmisnef og augnkvef) en stundum einnig ef um exem er að ræða.

Meðferð
Steraáburðir

Exem er meðhöndlað með steraáburðum. Þeir eru til í mörgum mismunandi gerðum og styrkleikum. Steraáburðum er skipt í fjóra flokka, vægustu sterarnir tilheyra flokki I en sterkustu flokki IV. Oft er vandasamt að velja viðeigandi húðstera í hverju tilviki. Stundum duga vægustu húðsterarnir (hýdrókortisón), en þau lyf er hægt að kaupa í apóteki án lyfseðils. Oft þarf sterkari steraáburði í stuttan tíma. Þetta er að sjálfsögðu metið af læknum hverju sinni.

Ofnæmislyf (andhistamín)

Kláðastillandi meðferð með ofnæmislyfjum (andhistamín) getur stundum dregið úr kláða og gert börnunum kleift að sofa. Slík lyf eru hættulaus séu þau rétt notuð.

Ljósameðferð

Ljósameðferð með útfjólubláum geislum (UVB og UVA) gefst oft vel. Þar sem sérfræðingar í húðsjúkdómum eru tiltækir er nauðsynlegt að sjúklingar séu skoðaðir áður en ljósameðferð er hafin og síðan með reglulegu millibili meðan á meðferð stendur. Sólbaðsstofuljós geta stundum haft góð áhrif á exemið en ekki á sama hátt og meðferð á ljósadeild. Almennt er exemsjúklingum ekki ráðlagt að stunda sólbaðsstofur nema í samráði við lækni.

Rakakrem og baðolíur

Mýkjandi krem eða svokölluð rakakrem eru mikilvæg í meðferð exems. Þau eru gjarnan flokkuð eftir fituinnihaldi: krem, feit krem og smyrsli. Þessi krem eru oft notuð samtímis bólgueyðandi steraáburðum. Stundum innihalda þessi krem rakabindandi efni eins og karbamíð, ávaxtasýrur og salt en þau geta verið óæskileg hjá yngstu börnunum vegna sviða í húð sem varir í stutta stund eftir að þau eru borin á húðina. Í sumum tilvikum verður að forðast krem með rotvarnarefnum vegna sviða sem þau geta valdið.

Til eru fjölmargar tegundir rakakrema, mismunandi feit og með mismunandi rotvarnarefnum. Það getur reynst þrautin þyngri að finna mýkjandi krem sem hentar. Þá er gott að leita ráða hjá lækni sem þekkir kremin vel.

Baðolíur og ýmis rakakrem má nota í baðkarið eða bera á húðina fyrir sturtu. Oftast er reynt að forðast ilmefni í baðolíum og kremum vegna ofnæmishættu. Baðolíur og freyðibað er tvennt ólíkt, freyðibað getur verið skaðlegt exembörnum vegna sápuinnihaldsins. Sápur ber að nota í hófi. Forðist helst sápur með ilmefnum.

Brjóstagjöf
Ef barnaexem er í nánustu ætt er mæðrum yfileitt ráðlagt að hafa barnið á brjósti eins lengi og unnt er, því talið er að það geti dregið úr exeminu fyrstu árin. Oft eru mæður sem sjálfar hafa haft barnaexem með exem á brjóstunum og eiga því í erfiðleikum með brjóstagjöf. Þó barn fái enga brjóstamjólk er ekki sannað að það hafi áhrif á exemið þegar fram líða stundir. Ekki er talið að móðir með barn á brjósti þurfi á sérstökum matarkúr að halda að öðru leyti en að borða hollan og góðan mat.

Framtíðaratvinna
Sum störf henta síður unglingum sem hafa haft barnaexem. Mikilvægt er að ræða þetta við unglinginn þó hann hafi ekki gert upp hug sinn varðandi framtíðina. Spyrjið gjarnan lækninn hvort það starf sem hugurinn stendur til eigi vel við sjúkdóminn. Sem dæmi má nefna: sjúkrahússtörf þar sem tíðra handþvotta er krafist, ræstingarstörf, hárgreiðslustörf, matargerð og verkstæðisvinna.

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!