KVENNABLAÐIÐ

Hvað er fimmta veikin?

Fimmta veikin er vírus sýking sem orsakast af völdum parvovirus B19 og veldur vægum útbrotum. Latneska heitið er erythema infectiosum. Nafnið er tilkomið vegna þess að sýkingin er fimmta í röðinni á lista yfir algenga barnasjúkdóma sem valda húðútbrotum. Veirusýkingin er algengari hjá börnum en fullorðnum og koma einkenni venjulega fram 4 til 14 dögum eftir smit (stundum allt að 20 dögum). Talið er að um 20% þeirra sem smitast sýni engin einkenni.

Einkenni

Fyrstu einkenni fimmtu veikinnar eru venjulega væg og ósértæk eins og hiti, nefrennsli og höfuðverkur.

Eftir nokkra daga geta komið rauð útbrot á andlit sem eru einkennandi fyrir þennan vírus og líkist því helst að viðkomandi hafi verið löðrungaður á báðum kinnum. Sumir fá fleiri útbrot nokkrum dögum síðar á brjóst, bak, og rass eða handleggi og fótleggi. Stundum fylgir kláði, útbrotin geta verið mismikil og geta komið og farið í nokkrar vikur en venjulega gengur þetta yfir á 7-10 vikum.

Sumir fá verki og bólgur í liði (polyarthropathy syndrome) en það er mun algengara meðal fullorðinna, sérstaklega kvenna. Sumir fullorðnir fá eingöngu einkenni frá liðum en engin önnur. Liðverkirnir vara venjulega í 1-3 vikur en geta varað mun lengur. Þetta gengur í flestum tilfellum yfir án frekari liðvandamála.

Auglýsing

Smitleið

Vírusin berst á milli manna með úðasmiti (Hósti, munnvatn, slef og hor) og eru einstaklingar mest smitandi áður en útbrotin eða liðverkirnir koma fram. Eftir að útbrotin koma fram  er viðkomandi hættur að smita og sé hann hitalaus og líður að öðru leiti vel er óhætt að fara í skóla/leikskóla/vinnu.

Parvovirus B19 getur einnig smitast með blóði og þunguð kona getur smitað barn sitt í gegnum fylgjuna.

Greining

Greining er venjulega byggð á hinum einkennandi útbrotum í andliti. Hægt er að greina mótefni fyrir parviovírus B19 í blóðprufu ef ástæða er til. Líkaminn myndar varanlegt ónæmi fyrir sjúkdómnum svo það á ekki að vera mögulegt að smitast aftur af honum.

Forvörn

Einstaklingur með fimmtu veikina er mest smitandi í byrjun þegar þeir eru með almenn kvefeinkenni og áður en þeir fá útbrot. Til þess að draga úr líkum á smiti er mikilvægt að

  • Þvo hendur reglulega með vatni og sápu
  • Halda fyrir munninn við hnerra og hósta
  • Ekki snerta augu, munn eða nef
  • Forðast umgengni við þá sem eru veikir
  • Vera heima á meðan að veikindi standa yfir

Þegar útbrotin koma fram er smiti lokið og óhætt að snúa aftur í daglegt líf.

Þungaðir heilbrigðisstarfsmenn ættu að vera upplýstir um mögulega áhættu og ráðfæra sig við lækni.

Meðferð

Fimmta veikin er venjulega vægur sjúkdómur og gengur yfir af sjálfu sér. Börn sem eru að öðru leiti heilbrigð jafna sig að öllu jöfnu að fullu.

Meðferð lýtur að einkennum svo sem að draga úr sótthita, kláða og bólgum og verkjum í liðum.

Ekkert bóluefni né lyf eru til við sjúkdómnum.

Aukaverkanir

Fimmta veikin er eins og áður segir venulega vægur sjúkdómur hjá þeim sem á annað borð eru hraustir fyrir. Þeir sem eru með veiklað ónæmiskerfi geta átt á hættu á síðbúnum aukaverkunum svo sem langvinnu blóðleysi (chronic anemia) sem þarf þá að meðhöndla.

Doktor.is – allur fróðleikur um heilsu og lyf!

 

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!