KVENNABLAÐIÐ

Hvað er litblinda?

Litblinda er í raun ekki blinda heldur ástand sem lýsir sér í erfiðleikum við að greina á milli lita. Orsökin getur verið erfðagalli eða sjúkdómur í sjóntaug eða sjónu (e. retina) augans. Arfgeng litblinda er algengasta gerð litblindu og kemur fyrir hjá um 8% karla og 0,4% kvenna. Ástæðan fyrir þessum mikla mun á tíðni milli kynja er arfmynstur gallans, það er hvernig hann erfist eins og nánar verður vikið að hér á eftir. Arfgeng litblinda kemur fram á báðum augum og versnar ekki með tímanum. Ef sjúkdómur er hins vegar orsök litblindunnar kemur hún aðeins fram á sýkta auganu og getur ástandið þá versnað með tímanum.

Auglýsing

Einkenni

Einkenni litblindu eru breytileg og fara meðal annars eftir því hvort hún er meðfædd, áunnin (vegna sjúkdóms), hálfgerð (hefur áhrif á skynjun ákveðinna lita) eða fullkomin (hefur áhrif á skynjun allra lita sem er mjög sjaldgæft). Lang algengasta einkennið er að viðkomandi eigi í erfiðleikum með að greina á milli rauðra og grænna lita, það er hefur svokallaða rauðgræna litblindu. Aðrir greina illa á milli blárra og gulra lita. Slík litblinda er sjaldgæf en er þó algengasta einkennið ef ástandið stafar af sjúkdómi. Önnur einkenni eru að hlutir sýnast gráleitir, skert sjón og augntin (augun titra).

Hvernig erfist litblinda?

Litblinda er klassískt dæmi um svokallaðar kyntengdar erfðir, það er erfðir sem stafa af genum á kynlitningunum. Venjuleg litsjón erfist með eðlilegu ríkjandi geni sem er að finna á X-kynlitningi en litblinda stafar af gölluðu víkjandi geni. Í ljós hefur komið að í raun er um tvö litblindugen að ræða, staðsett mjög nálægt hvort öðru á X-litningnum og erfast þau oftast saman sem ein heild.

Konur eru með tvo X-kynlitninga en karlar eru með einn X-kynlitning og einn Y-kynlitning. Ef kona erfir eðlilegt litsjónargen á öðrum X-litningi sínum en gallað gen á hinum verður hún ekki litblind, því að eðlilega genið ríkir yfir hinu gallaða. Kona þarf því að erfa litblindugen frá báðum foreldrum sínum, það er vera arfhrein um það, til þess að verða litblind. Karl, aftur á móti, erfir eingöngu einn X-litning og alltaf frá móður sinni en engin samsvarandi litsjónargen eru á Y-litningnum. Erfi hann eðlilegt litsjónargen frá móður sinni verður hann með eðlilega litsjón, en erfi hann gallaða genið frá henni verður hann litblindur. Karlar erfa því litblindu eingöngu frá móður sinni en konur verða að erfa hana frá báðum foreldrunum til að hún komi fram. Ef faðir er litblindur, skiptir það engu máli fyrir syni hans, þar sem þeir erfa ekki X-litning frá honum. Dætur hans erfa hins vegar allar litblindugenið frá honum. Þær verða þó ekki litblindar sjálfar nema þær erfi einnig litblindugenið frá móður sinni.

Um litasjón

Litsjónskynfrumur okkar heita keilur og eru í sjónu augans, nánar til tekið í miðgróp hennar. Þær eru af þremur mismunandi gerðum eftir því hvers konar litarefni þær innihalda en þau gera okkur kleift að greina frumlitina (e. primary colors) þrjá, það er rauðan, grænan og bláan. Sá sem er með eðlilega litsjón hefur nóg af öllum litarefnum. Einstaklingar með brenglaða litsjón eru hins vegar með gallaðar keilur af einni eða fleiri gerðum og skortir að einhverju eða öllu leyti eitt eða fleiri litarefni. Sá sem er með gallaðar grænar keilur sér græna liti en á erfitt með að greina þá frá rauðum. Sá sem er með gallaðar rauðar keilur greinir illa á milli rauðra, gulra og grænna litbrigða.

Auglýsing

Komið hefur í ljós að þrjú gen eru nauðsynleg fyrir eðlilegan þroska keilna okkar. Genin fyrir rauðu og grænu keilurnar eru staðsett á X-litningi, samanber það sem greint var frá hér að ofan. Genið fyrir bláu keilurnar er aftur á móti á litningi númer sjö. Sá litningur erfist jafnt til beggja kynja frá báðum foreldrum og verða einstaklingar af báðum kynjum að vera arfhreinir til að verða haldnir arfgengri gulblárri litblindu. Þetta er ástæða þess hversu sjaldgæf þessi tegund litblindu er, en yfir 95% af litblindu fólki eru karlmenn með rauðgræna litblindu.

Greining

Arfgeng litblinda er oftast greind með því að láta einstakling skoða sérstök litaspjöld, svokallaðar Ishihara litaprófstöflur. Á þeim eru doppótt mynstur mismunandi lita. Fólk með eðlilega litsjón sér ákveðnar tölur á spjöldunum þegar þau eru skoðuð í góðri birtu, en þeir sem eru litblindir sjá eitthvað annað. Engin lækning er til við litblindu en litblindir venjast því að nota ákveðna hluti til að „greina“ liti, til dæmis er rauða umferðarljósið ávallt fyrir ofan það græna.

Að lokum má geta þess að á netinu má finna síður með dæmum um það hvernig litblindir sjá ákveðnar myndir, til dæmis á Vischeck.com.

 

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!