Niðurgangur lýsir sér í þunnum og tíðum hægðum í miklu magni (meira en 200g á sólarhring). Niðurgangur getur komið skyndilega og án fyrirvara og stendur þá oftast stutt. Flestir fá einhvern tíma niðurgang. Niðurgangur er oftast af völdum veiru- eða bakteríusýkinga. Niðurgangur getur einnig verið langvinnur (lengur en 2-3 vikur). Í heiminum deyja 7 börn hverja mínútu af völdum niðurgangs (lélegt drykkjarvatn og vannæring).
Hver er orsök niðurgangs?
Sýking:
- Oftast er niðurgangurinn af völdum veirusýkinga, matareitrunar sem og bakteríanna salmonellu, campylobakter eða yersenia.
- Niðurgangur (oft með magaverkjum og uppköstum) er stundum vegna neyslu á fæðu sem er menguð af bakteríum. Sýkingin stafar yfirleitt af því að egg eða kjöt er ekki hitað nóg eða óhreinlæti í eldhúsinu (notið ekki sömu hnífana og skurðarbrettin fyrir kjöt og grænmeti sem á að borða hrátt).
- Niðurgangur getur einnig stafað af smiti frá öðrum einstaklingum (munið að sápuþvo hendurnar eftir klósettferðir!)
- Yfirleitt er ekki hægt að sjá eða finna það á lyktinni af matnum hvort hætta sé á ferðinni.
- Margar bakteríur, veirur og sníkjudýr valda niðurgangi.
- Örverurnar erta slímhimnu ristilsins og/eða smáþarmanna þannig að vökvamagnið í hægðunum verður mjög mikið. Þarmurinn verður óeðlilega virkur og dregst of kröftuglega saman og veldur þannig krampakenndum kveisuverkjum. Yfirleitt leiðir ertingin einnig til ógleði. Í sumum tilfellum blæðir úr þarminum.
Matareitrun:
- Sumar bakteríur (sérstaklega gulir stafylokokkar) mynda eiturefni sem erta þarmana kröftuglega.
- Eiturefnin segja fljótlega til sín eftir inntöku (nokkrir klukkutímar).
- Einstaklingur með sár eða ígerð á höndum ætti ekki að elda mat handa öðrum.
Annað:
- Sumir fá niðurgang af sýklalyfjameðferð. Niðurgangurinn hverfur oftast þegar meðferðinni er hætt. Orsökin er sú að sýklalyfin örva þarminn eða breyta þarmaflórunni en ekki er um að ræða sýklalyfjaofnæmi.
Langvinnur niðurgangur:
Langvinnur niðurgangur á sér margar orsakir:
- ristilerting/ Ristilkrampar
- langvinn þarmasýking
- sáraristilbólga (Colitis ulcerosa)
- svæðisgarnakvef (Crohn´s)
- fituskita
- hægðalyf
- mjólkursykuróþol
- of mikil alkóhólneysla
- kaffi eða sætabrauð
- efnaskiptasjúkdómar
- glútenóþol.
Hver eru einkennin?
- Þunnar og tíðar hægðir.
- Lystarleysi.
- Ógleði, uppköst.
- Kviðverkir.
- Jafnvel hiti.
Ef niðurgangurinn hefur staðið yfir í meira en 3 vikur er litið svo á að hann sé langvinnur.
Hver eru hættumerkin?
- Blóðugur niðurgangur.
- Niðurgangur með greftri (gult slím).
- Of lítil vökvainntaka.
- Ofþornun sem lýsir sér í dökku þvagi, litlu þvagmagni og þurrum slímhimnum.
- Áberandi sljóleiki.
- Bráður niðurgangur hjá ungbörnum.
- Bráður niðurgangur hjá eldra fólki.
Hvað er til ráða?
- Við bráðum niðurgangi: Drekktu mikið (gjarnan 3-4 lítra daglega). Gott er að fá sér drykki sem innihalda sykur og sölt (powerade eða gatorade). Vökvainntaka er nóg þegar þvagið er orðið ljósgult.
- Fáðu þér eitthvað sem inniheldur salt (t.d. súpu, snakk o.þ.h.)
- Fylgstu vel með hættumerkjum.
- Gættu þess að vera hrein/n um hendurnar.
- Gæta skal fyllsta hreinlætis við matseld. Ekki nota sama hníf í kjöt og grænmeti.
- Borðaðu hollan mat þegar þú færð lystina aftur.
- Ekki neyta mikils af mjólkurvörum fyrstu dagana á eftir.
Hvenær á að leita læknishjálpar?
- Þegar hættumerkja verður vart.
- Ef niðurgangur kemur í eða eftir dvöl í framandi landi.
- Ef niðurgangur hefur verið viðvarandi í 1-2 vikur.
Hver er meðferðin?
Fylgdu ráðunum undir Hvað er til ráða hér að ofan.
- Niðurgangurinn hverfur innan viku og er því sýklalyfjagjöf aðeins nauðsynleg í fáum tilfellum. Sýklalyfjum geta fylgt aukaverkanir (m.a. langvinnur niðurgangur).
- Ef blóð, gröftur eða mikill hiti fylgir ekki niðurgangnum er hægt að gefa hægðastemmandi lyf s.s.:Imodium,®
- Reyna má fyrirbyggjandi meðferð við „ferðaniðurgangi“ með gersveppum (Acidophilus)
- Á ferðalögum erlendis er hægt að koma að einhverju leyti í veg fyrir niðurgang með því að sjóða drykkjarvatnið eða kaupa vatnið á flöskum. Auk þess er æskilegt að borða einungis soðið grænmeti, grænmeti með hýði og forðast að fá sér klaka.