Sigurveig Káradóttir skrifar: Þetta litla læri lenti hér í ofninum um daginn. Kryddunin var einföld og sósan fersk og góð. Ekki brún sósa eins og í „gamla daga” (þó svo hún geti verið ágæt) heldur sítrónusósa. Sítróna passar sérlega vel með lambi og eins hvítlaukur. Í þetta sinn var bæði notað ásamt salti og hvítum pipar. Hvítur pipar er ómissandi með kjöti og eiginlega óskiljanlegt hversu oft svartur pipar er notaður í uppskriftir. Salt og hvítur pipar er algjörlega málið þegar kemur að góðum grunni á svo til öllu sem viðkemur matargerð. Svartur pipar er eitthvað sem passar með sumu, stundum og ekki í of miklu magni.
En að lærinu! Lærinu sjálfu það er – sósan kemur á eftir….
1 stk læri (þetta var 1,8 kg minnir mig)
2 sítrónur – börkur og safi
1 stór hvítlaukur (eða 3-4 litlir)
4-5 lárviðarlauf (ómissandi í flest)
Ólífuolía, sjávarsalt og hvítur pipar
Vatn – 3-400 ml
Sítrónubörkurinn rifinn á rifjárni – fremur smátt. Hvítlaukurinn saxaður smátt.
Lærið nuddað með smá ólífuolíu, sítrónusafa, hvítlauk og sítrónuberki.
Saltað og piprað ríflega og passlega.
Inn í ofn í fati – smá vatn sett neðst í fatið – sirka 300-400 ml ef ég ætti að giska.
Fer svo sem eftir fatinu sem er notað, en þannig að það sé ágætlega í botninum á fatinu.
Passað að ausa vatninu og yfir við og við og bæta við ef fer að gufa og mikið úr fatinu.
100-120 gráður í sirka 2 til 2 og 1/2 tíma og hækkað undir rest í 200 gráður í 20-30 mínútur eða svo. Þannig að kjötið taki lit og eins kartöflurnar. Sem sé um 3 tímar allt í allt.
Eftir sirka 1 til 1 og 1/2 tíma…
1 kg kartöflur – beint í fatið og smá smjör!
Kartöflurnar lentu í fatinu líka – fóru inn eftir sirka einn og hálfan tíma eða svo. Bara beint í fatið og aðeins meira vatni bætt við ef þarf.
Líka smjöri – slatta…sirka 50-100 grömmum eða svo sem dreift var um fatið og yfir kartöflurnar.
Þegar sirka 20-30 mínútur voru eftir, var vatninu og þar með kjötkraftinum hellt í pott gegnum sigti og það smakkað.
Enginn aukakraftur (teningur) reyndist nauðsynlegur, því grunnurinn var ansi góður….
Þetta var sirka 2-300 ml af krafti eða svo í þetta sinn.
Og þá kemur að sósunni!
Krafturinn settur í pott í gegnum sigti – kjöt og kartöflur aftur í ofninn og hitinn hækkaður.
2 msk hveiti og 2 msk lint smjör – stappað saman með gaffli á litlum disk – smjörbolla sem sé (roux).
Krafturinn látinn bullsjóða meðan smjörbollunni er bætt saman við hratt og örugglega (svo að sósan fari ekki í kekki!).
Sósan smökkuð til ( gott að smakka kraftinn líka áður en öllu er bætt við – alltaf að smakka allt á öllum stigum til að vita hvað er framundan!).
Látið krauma vel og hrærið stanslaust á meðan sósan þykknar. Þá er rjómaslettu bætt við – sirka 50-100 ml eða svo – fer eftir því hversu þykk og bragðmikil sósan er eða þið viljið hafa hana. Ef hún er of þunn, þá bætið við meiri smjörbollu.
Þegar þið eruð sátt við sósuna (smá salt og pipar ef þarf – lambakjöts, kjúklinga eða grænmetistenging ef þarf – mismikill kraftur sem kemur af kjötinu og misjafn smekkur fólks!) er allt tilbúið.
Lærið sett á fat ásamt kartöflum, sósan í skál….eina sem þarf með aukalega ef vill eru súrar gúrkur (finnst mér allavega).
Tilbúið og bara kalla: „Matur”!
Engar óþarfa pönnur eftir brúnaðar kartöflur, pottar eftir kartöflusuðu og annað meðlæti. Bara eitt stórt fat í vaskinn og ekkert vesen.
Verði ykkur að góðu!
Sigurveig er landsþekktur sælkeri og heldur bæði út bloggi ásamt því að reka Matarkistuna