Þegar par hefur ákveðið að fara í tæknifrjóvgunarmeðferð, hvort sem um er að ræða tæknisæðingu eða glasa-/smásjárfrjóvgun, þarf karlmaðurinn að undirgangast sæðisrannsókn. Rannsóknin er ein mikilvægasta rannsóknin sem par sem á í frjósemisvanda undirgengst. Strax þegar parið er farið að hugsa um að leita læknishjálpar vegna þess að ekkert hefur gengið, er mjög mikilvægt að þessi rannsókn sé gerð.
Athugið! Mjög óráðlegt er að konan undirgangist einhverja frjósemismeðferð ef sæðisrannsókn hefur ekki verið framkvæmd á karlmanninum. Það getur verið ávísun á mun lengri bið eftir barni. Sæðisrannsókn á alltaf að vera fyrsta úrræðið.
Sæðisrannsókn getur verið framkvæmd á heilsugæslustöð eða á tæknifrjóvgunardeild. Mikilvægt er að karlmaðurinn fari rétt að svo að niðurstöður prófsins gefi rétta mynd af frjósemi hans. Karlmaðurinn má ekki hafa haft sáðlát í 2 sólarhringa áður en prófið er tekið. Hægt er að fá dósir undir sæðis- eða þvagsýni í apótekum. Ekki má nota annað ílát undir sýnið.
Leiðbeiningar
Áður en sæðissýnið er tekið þarf karlmaðurinn að þvo lim sinn vandlega með sápu og vatni.
Mjög mikilvægt er að allt sæðið komi í dósina, sérstaklega fyrsti hluti þess. Ef það tekst ekki, er nauðsynlegt að láta lækninn vita af því. Sæði er mjög viðkvæmt fyrir hitabreytingum. Þegar búið er að taka sýnið, skal geyma lokaða dósina innan klæða svo jafn hiti haldist á sýninu. Varist að láta dósina verða fyrir hristingi. Ekki má líða lengri tími en einn klukkutími frá því að sýnið er tekið og þar til því er skilað á rannsóknarstofu/til læknis.
Ef sæðisrannsóknin er hluti af tæknifrjóvgunarmeðferð þarf að skila sýninu á rannsóknarstofu Kvennadeildar. Rannsóknastofan er staðsett í kjallara ljósmæðraskólans. Inngangurinn er sá sami og hjá glasafrjóvgunardeild. Gengið er niður stigann hægra megin og svo inn ganginn til hægri.
Athugið
Ef karlmaðurinn hefur orðið veikur eða tekið einhver lyf undanfarna 3 mánuði áður en sæðissýnið er tekið getur það haft talsverð áhrif á útkomuna hjá manninum, sérstaklega ef hann hefur fengið hita. Því er rétt að taka það fram við rannsóknina hvort veikindi eða lyfjanotkun er um að ræða.
Ef útkoma sýnisins er ekki eins og vonast var eftir getur karlmaðurinn haft áhrif á útkomuna með ýmsu móti. Hann getur tekið sink og fólinsýru sem hafa mjög góð áhrif á sæði þegar þetta er tekið saman. Varist að ganga í þröngum buxum, og að fara í löng eða heit böð eða heita potta yfir 37°C. Sturta er betri en bað. Reykingar hafa mjög slæm áhrif á sæði karlmanna og rannsóknir benda til þess að sæði karlmanna sem reykja sé oft með meiri leynda galla sem veldur meiri hættu á fósturláti. Hollur matur og góð hreyfing hafa einnig góð áhrif á frjósemi bæði karla og kvenna.
Hvað er eðlilegt sýni?
Til að sæðissýni geti talist eðlilegt þarf það að uppfylla eftirfarandi skilyrði.
- Venjulegt sýni er á bilinu 2-5 ml
- Í hverjum ml þurfa að vera meira en 20 milljónir sæðisfrumna
- Meira en helmingur sæðisfrumnanna þarf að vera með eðlilegan hreyfanleika
- Meira en helmingur sæðisfrumnanna þarf að vera rétt skapaður
- Magn hvítra blóðkorna verður að vera undir 1 milljón í ml