Leikkonan Gwyneth Paltrow hefur nú snúið sér frá leikstörfum og er öll í hollustunni. Getur samt „venjulegt“ fólk fylgt matseðli Hollywoodstjörnunnar og gerir það eitthvað gagn?
Matreiðslubók Gwyneth, It’s All Easy, (metsölubók) lofar einföldum uppskriftum fyrir upptekið fólk. Það hljómar vel, ekki satt? Sally Whittle prófaði og segir sögu sína á Mirror.
„Það væri æðislegt ef ég væri Lancashire útgáfan af Gwynnie, en ég er einstæð móðir á fimmtugsaldri sem vinnur fullan vinnudag við markaðsstörf. Það næsta sem ég kemst Hollywood-glamúr er að lesa slúðurblað á læknastofu. Gæti ég borðað eins og Gwyneth í heila viku?
Í þessari viku þurfti Sally að kaupa tamari-sósu (sojasósa með litlu saltinnihaldi), kimchi (súrsað kóreskt kál) og aioli (hvítlauksmajónes).
Gwyn býst ekki við öðru en þú eigir heima: Ólífuolíu, valhnetuolíu, hvítvínsedik (lífrænt, auðvitað) og fullt af kryddi og kryddjurtum.
„Ég þurfti að eyða 7000 krónum í innihaldsefni og öðrum 7000 í að koma mér upp grunni.“ Sally ákvað að hafa dóttur sína, hina 11 ára gömlu Flea, með í nýja mataræðinu. Í fyrstu atrennu prófaði hún grillaða eggjasamloku. „Ég sleppti aioli og notaði majónes í staðinn. Fimm stjörnur þrátt fyrir svindlið!“
Næsta morgun prófaði Sally morgunmat með acai berjum. Dóttir hennar neitaði að borða það, því henni fannst það líta út eins og froskahrogn! Prófuðu mæðgurnar því Blueberry Granola Parfait – jógúrt með bláberjum, granóla og hunangi. „Þetta var mjög gott og gæti verið eftirréttur. Mikið af trefjum og fitulaus grísk jógúrt. Elskuðum þetta!“
Í hádeginu borðaði Sally annaðhvort mexíkóskar kjúklingavefjur eða kjúklingasalat, afgang frá kvöldmati síðustu daga. Til að búa til vefjurnar tekurðu kjúklingabita, sellerí, vorlauk, kóríander, cummin og kanil. Notar hún agave sýróp sem er náttúruleg sæta. Kjúklingamixið er gott að setja í salatblað og rúllað upp.
Kjúklingasalatið er blandað kál í botninn, paprikur, kjúklingabaunir, tómatar, grænar baunir og rauðlaukur. Rauðvíns/sinnepssósa.
Hún eldaði svo piccata kjúkling með blómkálsmeðlæti. Besta uppskriftin var þó kúrbíts/kjúklinga núðlusúpan að tælenskum hætti.
Sally kemst að þessari niðurstöðu: „Best er að borða réttina hennar Gwyneth og svindla smá. Ég notaði venjulegt majónes og frosin krydd, núðlur og fleira. Það var samt mikið af ferskum mat og mér fannst hann næringarríkur – mér leið ekki eins og ég væri að borða ruslfæði. Eftir viku af fæðinu léttist ég um tæp tvö kíló. Ég uppgötvaði uppskriftir sem ég borða nú reglulega. Það var líka frábært að hvetja Flea til að prófa nýja rétti.“