Etanól er vökvi sem blandast vatni í öllum hlutföllum. Vatnsblanda etanóls er stundum nefnd spritt. Sterkt spritt er u.þ.b. 96% etanól í vatni. Etanól er oftast notað í vatnslausn, blandað ýmsum öðrum efnum (litarefnum, bragðefnum o.s.frv.). Ef styrkur etanóls í slíkum blöndum er umfram 2,25% að rúmmáli telst vökvinn áfengi. Etanól kemur fyrir í lyfjum, einkum eldri tegundum lyfja í fljótandi formi og er einnig notað í snyrtivörur. Etanól eða áfengi hefur verið notað sem róandi lyf eða svefnlyf um aldir. Misnotkun etanóls er því eflaust ævagamalt fyrirbæri. Etanól hefur einnig umtalsverða verkjadeyfandi og vafalaust einnig kvíðastillandi verkun. Auk þessa hefur etanól ýmis önnur lyfhrif. Má þar nefna víkkun æða, aukin þvaglát, aukna saltsýrumyndum í maga og breytingar í fituefnaskiptum (stundum til bóta). Lifrin skiptir meginmáli við umbrot etanóls í líkamanum. Við umbrot áfengis myndast orka sem nýtist líkamanum. Etanól er að þessu leyti mjög sérstakt efni.
í gegnum tíðina hefur verið aflað geysimikillar þekkingar á skemmdum á líffærum og líffærakerfum, aðallega hjá alkóhólistum, sem rekja má til neyslu áfengis. Í heild er vitað meira um skaðsemi áfengis en nokkurs annars vímugjafa. Skaðsemi áfengis stendur oftast í beinu hlutfalli við skammta eða magn. Þetta þýðir einfaldlega að áfengi af öllum tegundum er því skaðlegra sem þess er neytt í stærri skömmtum. Neysla áfengis í allstórum skömmtum með hléum á milli kann þó að skaða neytandann minna en minni neysla daglega án hvílda eða hléa á milli. Við félagslega notkun eins og tíðkast hér á landi og víðar (helgarfyllerí) ná líffæri viðkomandi oftast að jafna sig nokkuð vel á milli. Ekki er þó verið að mæla slíkum neysluvenjum bót og sérstaklega ekki í ljósi þeirrar slysahættu sem af þeim stafar. Á hinn bóginn kann áfengi að valda meira tjóni þegar til lengdar lætur á líffærum þeirra sem neyta þess daglega samkvæmt venju eða til sjálfslyfjunar og sjaldan eða aldrei eru taldir drukknir. Umræða um það hvor neysluvenjan sé menningarlegri er utan ramma þessarar umfjöllunar. Staðreynd er að menn eru misþolnir gegn eiturhrifum etanóls á ýmis líffæri, ekki síst lifur og hjarta. Samstaða er um að áfengisneysla skaði konur meira en karla. Skiptir þar betra frásog frá maga sennilega verulegu máli. Til eru einstaklingar sem drukkið hafa árum saman á ávanastigi en eru samt með nánast óskemmda lifur. Slík drykkja myndi í flestum tilvikum hafa leitt til truflunar á lifrarstarfsemi eða jafnvel dauða vegna lifrarhrörnunar sem kallast skorpulifur. Þá er þess að geta að lítil dagleg áfengisneysla getur verið gagnleg.
Helstu líffæri og líffærakerfi sem vitað er að skemmst geta vegna langvarandi áverkunar etanóls, einkum á ávana- og fíknistigi (þá oft miðað við að ætluð dagleg neysla etanóls sé 50 g eða meira), eru:
Miðtaugakerfi: Heilarýrnun, þ.e. rýrnun á berki stóra heila og litla heila er algeng meðal alkóhólista en einnig að vissu marki meðal einstaklinga sem neyta áfengis á félagslegu stigi.
Úttaugakerfi: Langvarandi áfengisneysla veldur truflun í starfsemi tauga í úttaugakerfi, einkum í útlimum. Upp kemur fjöltaugabólga með minna afli og tilfinningu í útlimum, aðallega í fótleggjum. Á vægara stigi eru dofi, stingir og afbrigðileg tilfinning áberandi.
Útlimavöðvar: Vitað er að alkóhólistar eiga á hættu að fá vöðvarýrnun sem bundin er við vöðva í útlimum, sérstaklega fótleggjum. Sterkar líkur er á því að etanól kunni að skaða frumur í öllum beinagrindarvöðvum þannig að enzým og önnur efni í frymi leki út. Þessu fylgir sársauki eða eymsli í vöðvum. Þetta getur sennilega einnig gerst í vægu formi við félagslega notkun áfengis.
Hjarta og blóðrás: Etanól dregur beinlínis úr starfsemi hjartans og leiðir til fitusöfnunar í hjartavöðva. Áfengisneysla eykur líkur á hjartsláttartruflunum, og skyndidauða meðal alkóhólista er oft að rekja til þessa. Áhrif etanóls á æðakerfi eru margþætt en til lengdar litið hækkar etanól blóðþrýsting ef þess er neytt í umtalsverðum mæli.
Vélindi og magi: Krabbamein í munni, tungu, munnholi og vélinda er langtum algengara hjá þeim sem bæði reykja tóbak og drekka áfengi á ávanastigi. Líkur eru til þess að áfengisneysla eigi stærri hlut í myndun krabbameins í vélinda en tóbaksneysla. Við neyslu áfengis á ávanastigi eru magabólgur, með fleiðri/sári í slímhúð og smáblæðingum, algengar. Í litlum skömmtum getur áfengi, einkum bitrumiklar víntegundir svo sem heitvín, aukið seytur og þar á meðal sýrurennsli í maga sem nota má til lækninga (við lystarleysi).
Þarmar: Etanól truflar starfsemi þarma. Eftir töku stórra skammta má greina sár/fleiður í þekjufrumum í skeifugörn. Eftir langvarandi neyslu áfengis verður drep í þekjufrumum í þörmum. Niðurgangur er algengur fylgifiskur áfengisneyslu. Langvarandi áfengisneysla virðist auka líkur á krabbameini í ristli.
Lifur: Áfengisneysla hefur í för með sér fitusöfnun í lifur. Lifrarbólga er annar fylgifiskur af völdum etanóls. Við hana kemur drep í frumurnar með bólgum og bandvefsmyndun. Bráð lifrarbólga getur verið lífshættuleg. Talið er að skorpulifur sé afleiðing lifrarbólgu. Skorpulifur getur leitt til krabbameinsmyndunar í lifur.
Briskirtill: Áfengisneysla hefur sams konar áhrif á frumur í briskirtli og lifur. Langvarandi neysla getur valdið drepi í frumum sem leiðir til brisbólgu, oft samfara þrálátum sársauka. Brisbólga af völdum áfengisneyslu virðist stuðla að krabbameinsmyndun í kirtlinum.
Blóðmergur: Etanól skaðar beinlínis frumustarfsemi í blóðmerg og truflar þannig ýmsa mikilvæga starfsemi sem þar fer fram eins og t.d. myndun rauðra og hvítra blóðkorna.
Kynkirtlar: Áfengisneysla á ávanastigi dregur úr getu karla til samfara þar sem ris í getnaðarlim bregst. Áfengisneysla veldur líka ófrjósemi. Sannað er að etanól skaðar eistu á þann veg að frumum í sáðfalli fækkar, aðallega heilbrigðum sæðisfrumum, og hreyfigeta þeirra minnkar. Tíð og langvarandi drykkja hefur í för með sér rýrnun á eistum. Þá truflar etanól mjög yfirstjórnun kynhormóna í undirstúku og heiladingli. Truflun á tíðahring kvenna sem eru alkóhólistar er einnig algeng. Þá má nefna að etanól dregur úr frjósemi kvenna.
Fóstur: Alkóhól getur valdið alvarlegum fósturskemmdum aðallega á fyrstu þremur mánuðum meðgöngu, en einnig síðar. Ef þunguð kona neytir umfram 50 g (u.þ.b. 5 barskammta) af etanóli á dag eða er á „drykkjutúr“ á 3.-12. viku meðgöngu á hún á hættu að fæða varanlega skaddað barn. Þessi börn eru með afbrigðilega skapað andlit, lítil augu, lítið höfuð og lítinn heila. Að auki geta komið fram skapnaðargallar í ýmsum öðrum líffærum. Enn má nefna lítinn vöxt, óværð eftir fæðingu, m.a. vegna fráhvarfseinkenna, og ýmislegt fleira. Lítill heili þessara barna merkir oftast minni vitsmuni en eðlilegt er og þar af leiðandi minni eða seinni þroska. Etanól virðist ekki aðeins leiða til fækkunar taugunga í heila, heldur einnig trufla dreifingu þeirra um heilavefinn. Áfengisneysla á meðgöngu getur einnig leitt til fósturláts, stuðlað að fæðingu fyrir tímann og dauða á nýburaskeiði.
Á síðustu árum hefur komið fram á grundvelli veigamikilla faraldursfræðilegra rannsókna að lítil dagleg neysla etanóls eða neysla sem jafngildir lítilli, daglegri neyslu etanóls getur lengt líf manna Það magn sem hér ræðir er á bilinu ca. 10-30 g. Ef neyslan er meiri en þessu nemur hefur etanól gagnstæð áhrif sem eru marktæk þegar við neyslu 50 g á dag (dánarlíkur hafa þá aukist um 20% miðað við þá sem ekki neyta etanóls). Þessa jákvæðu verkun lítilla, daglegra skammta etanóls er að rekja til gagnlegrar verkunar á fituefnaskipti með eftirfarandi minni hættu á fituútfellingum í æðaveggjum og þar með minni líkum á æðakölkun. Í þessum skömmtum dregur etanól einnig úr hættu á segamyndun (blóðtappamyndum) í æðum og þar með hættu á hjartadrepi. Ef dagleg neysla er hins vegar að marki umfram 30 g af etanóli að meðaltali á dag fer etanól að valda hækkuðum blóðþrýstingi og hafa neikvæð áhrif á fituefnaskipti og því dregur úr lífslíkum manna.
Í ljósi þessa má ætla að félagsleg neysla áfengis ætti ekki að fara fram úr u.þ.b. 30 g af etanóli á dag. Eins og áður getur er oft miðað við að dagleg neysla á ávana- og fíknistigi sé 50 g eða meira.